föstudagur, nóvember 09, 2007

Baðherbergi óreglunnar.

Ég fann það. Draumabaðherbergið mitt. Ég fann það við mína reglulegu skoðun á fasteignamarkaði Danmerkur. Ég fann það í annars prýðilegu húsi, með prýðilega ljótum grænum arni.

Án efa það fyrsta sem heillaði mig er fóturinn sem heldur uppi látlausri innréttingunni. Hrár, fallega hannaður, og maður veit varla hvort hann yfirleitt snertir gólfið. Tilfinning fyrir léttleika rýmisins fer um mann. Skemmtilegur contrast kemur svo fram með samspili annars vegar hrárrar járnáferðar á lóðréttum pípum og hins vegar áferðar hlýleikans á láréttum, hvítum pípum. Minnir á ákveðinn hátt á baráttu hins góða og hins illa, sem alls staðar umkringir okkur. Baráttan fer fram rétt ofan við iðandi gólfefnið, sem að líkindum skilar á endanum föllnum hermönnum beinustu leið til helvítis um ryðgað niðurfallið. Svona praktískt séð má benda á að líklegast sér lítið á gólfinu, sem er hentugt ef fólk er lítið fyrir að þrífa. Liturinn er einnig klassískur.

Nú. Því næst missti ég smá þvag þegar ég sá þessa frábæru lausn ofan við vaskinn. Hvaða hálfvita datt í hug að hafa þarna spegil, þegar hægt er að hafa GLUGGA? Svona í hreinskilni, hvort viltu, really, frekar sjá úldið og svefndrukkið fésið á sjálfum þér á morgnana eða fagra náttúru, smáfugla að söng, sólskin og blóm? Þá er gluggakistan einnig tilvalin til nýtingar sem hilla undir sápu, tannbursta og fleira sem fylgir mannlegu viðhaldi. Ef þú þarft endilega að skoða þig eitthvað, jafnvel kreista eina bólu, þá er spegillinn þarna bara strax til hægri. Honum er fallega stillt upp, helmingur á köldum flísum og helmingur á appelsínugulum vegg. Úr verður reyndar örlítil skekkja á heildarmyndinni, en nauðsynleg svo maður taki eftir honum og hrökkvi ekki í kút. Í seilingarfjarlægð frá speglinum er ágætis sápuskál sem án efa mætti nýta einhvern veginn. Dásamlegt.

Einu gallarnir sem ég sé er að klósettpappírinn mætti vera betur staðsettur og vaskurinn er í full mikilli hæð frá gólfi. Svo hefði ekkert verið verra að hafa handklæðið þarna appelsínugult, rétt til að gefa þessu smá stíl. Meintur gluggaopnari sem hangir niður er stórsniðugur, enda varnar hann því að smáfólkið sé að príla uppá innréttinguna til að opna gluggann.

Stórglæsilegt.

Ég á afmæli á morgun. Inneign í Denmarks' House of Restroom Crap væri æði. Gleym-mér-ey.

föstudagur, október 26, 2007

Óður til elliheimilis

Bara í gær var ég 16. Þá fannst mér ég fullorðin. Í fyrradag var ég 10. Þá skildi ég ekki fullorðna. Í dag, eða eftir 15 daga, er ég 26. Ég er barn. Ég er barn sem varð allt í einu fullorðið. Tók varla eftir því. Ég spila með, því ég á að gera það, en í rauninni vil ég bara vera í play station.

Ég vil hlaupa í snjónum, búa til gildrur fyrir ruslakallana, henda snjóboltum í rúður og njósna um eldri krakkana. Já, ég var leiðinlegt barn. Er leiðinlegt barn. Ég vil elta ömmu inní búr því ég veit að þar er súkkulaði. Súkkulaðið í mínu búri er ekki jafn gott. Ég vil vera skömmuð fyrir að vera með hávaða í fjárhúsunum. Ég á engin fjárhús. Reyndar keypti Sindri tvær gimbrar um daginn. Nei þrjár. Hann vildi ekki kaupa þessa sem mig langaði í. Ég vil heyra andvarp og "voðalegt vesen er á þér Birna mín" í kjölfarið. Eða nei. "Ætli það verði ekki að vera" má líka missa sín. Ég vil spila badminton fram eftir allri nóttu í götunni minni. Ég vil leika mér í heyi og sitja í skottinu á bílnum. Mig langar líka að fá grænan frostpinna þegar ég er búin að borða á Greifanum. Ég vil renna mér á uppblásinni gúmmíslöngu innan úr traktorsdekki. Hver vill koma með? Englar. Ég þarf að búa til engla í snjónum. Helst horfa á stjörnurnar meðan ég er að því.

Allt þetta gerist nú innra með mér. Samfélagið leyfir mér ekki að vera barn lengur. Ég leyfi mér ekki að vera barn lengur. Það reynir oft að brjótast fram, við misgóðar undirtektir þeirra sem vitni verða að því. Þeim fer sífellt fækkandi sem vilja spila play station. Ég náði sjálfsagt í eina kallinn í veröldinni sem nennir alls alls ekki að vera barn lengur. Sökks, huh!? Enginn er til í að henda snjóboltum í rúður. Svo ég les bara lögfræði. Lögfræði er leiðinleg. Lögfræði er fyrir fullorðna. Ég er bara barn.

Ég spila meira að segja svo vel að (vonandi bara sumt) fólk telur mig kalda. Einn bekkjarbróðir minn gekk svo langt að segja að ég væri úr járni. Og bætti því við að "allir strákarnir í bekknum (4) héldu að ég gæti ekki grátið". Ég varð hissa. Svo hissa að ég fór næstum að gráta. Ég er meistari í grenji. Þ.e. barnið. Innra með mér. Enda er ég í raun viðkvæm. Lítil og viðkvæm stelpa sem varð skyndilega feit. Afi er farinn að kommenta á það. "Rosalega er hún orðin sver" sagði hann við mömmu. Eða pabba. Þá var ég reyndar ólétt. En samt. Ég fór næstum að gráta, enda viðkvæm. Fólk sér fituna. Af hverju sér það ekki viðkvæmni líka? Ég er svo full og útbólgin af tilfinningum að ég er að springa. -kafn- Já ég er bara full. Pay no attention to me. This will be erased tomorrow.

Vertu velkominn afmælisdagur nr. 26, ef þú nærð mér. Ég verð í play station.

mánudagur, október 22, 2007

Xavier rekinn!

Xavier hefur ekkert mætt í vinnu síðan hann var ráðinn. Honum hefur verið sent uppsagnarbréf. Nafnið tók ég yfir, enda mun ég skrifa fyrir hans hönd um sinn. Nóg um það.

Það er aldrei heiðarlegt að sparka í liggjandi fólk. En standandi - jaaaá - sparkið að vild.

Ég lenti í áhugaverðum og heimspekilegum umræðum í dag. Topicið var "er fólk alltaf sammála?". Niðurstaðan var sú að við getum ekki vitað það. Þó fólk segist ekki vera sammála, þá gæti það samt verið sammála sjáiði. Hver veit. Kannski erum við öll sammála. Áhugavert. Sammála?

Venni Páer verður ekkert skemmtilegri í endursýningu.

Ég hlakka til jólanna. Kann vel við þau. Svo jólaleg. Jólaleg jól, jólaleg jól. Efni í frumlegt og jólalegt jólalag.

Takið einhvern daginn í að telja hve oft þið heyrið "já sæll", "já fínt" og "eigum við að ræða það eitthvað". Minnir mig á miltisbrandinn. Af hverju eru allir hættir að tala um hann?

Ég fékk ekki salmonellu þó ég hafi borðað hráan kjúkling. Heppin.

Queen eða Simply Red?

Það er víst sparnaður að vera með yfirdrátt hjá S24. Sparnaður er teygjanlegt hugtak.

Ég ætla að hætta áður en þetta verður leiðinlegra en skattalögin.

Kram og kossar.
X

sunnudagur, október 21, 2007

Ráðning í stöðu.

Í kjölfar uppsagnar minnar hér á síðunni hófst mikil vinna við að ráða í hina auglýstu stöðu sem þá losnaði. Hef ég nú ráðið í starfið, eftir mikla ígrundun og erfitt val milli fjölmargra efnilegra umsækjenda. Nýr starfsmaður kýs að kalla sig XXX Xavier eða Xavier. Var honum nýverið sagt upp störfum á einhverjum virtasta fjölmiðli landsins. Ástæðuna segir hann sögusagnir um meint morð hans á frekar ljótri en sprelllifandi rottu.

XXX Xavier hefur störf nú þegar.

Gaman er frá því að segja að Xavier mun ganga tilfallandi erinda hér í nágrenni bæjarins auk pistlaskrifa. Er þar aðallega um að ræða umhverfisvæna meindýraeyðingu. Þá hefur hann einnig með höndum starf aðalráðgjafa borgarstjóra.

Ég býð Xavier velkominn til starfa. Þá þakka ég veittan áhuga á stöðunni, hlý orð og kveðjugjafir.

Góðar stundir.

sunnudagur, júlí 22, 2007

Ég er hætt.

Sjálf kíki ég nánast aldrei á blogg þeirra sem sjaldan nenna að blogga. Sjálf nenni ég sjaldan að blogga. Því tel ég líklegt að sjaldan sé kíkt á bloggið mitt. Sjaldan. Þar sem þetta er forarpyttur sem nánast vonlaust er að koma sér úr, nema með því að tapa kúlinu og fara að biðja fólk um að skoða eða byrja að kommenta sjálfur, þá hef ég ákveðið að segja upp stöðu minni á þessari síðu. Auk þess nenni ég þessu ekki. Eða sjaldan. Staðan er því laus til umsóknar frá og með deginum í dag. Ég kveð með trega.

B.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Ef það er eitthvað sem ég get, þá er það að skrifa texta. Eftirfarandi er t.d. uppáhalds setningin mín úr glænýju BA ritgerðinni sem ég er að leggja lokahönd á. Mér líður eins og nýbakaðri móður:

"Since article blablabla of the Act in Respect of Children segir að umgengni og meðlag megi ákvarða innan dómsmáls um forræði, verður að álykta að slíkar ákvarðanir fari eftir jurisdictional rules of hjúskaparlögum séu þær kröfur á annað borð gerðar. (einnig er skylda að ákvarða meðlag samtímis sbr. Einhverja grein)"

Ég fæ bara gæsahúð þegar ég les þetta. Stolt sendi ég leiðbeinandanum ritgerðarlufsuna, með þessa setningu innanborðs að sjálfsögðu. Hann gerði feitan hornklofablending utan um hana (ekki spyrja mig hvað hornklofablendingur er). Ég tók því allavega þannig að hann vildi einhvers konar umorðun. Ekki skil ég hvers vegna.

Það mætti halda að maðurinn hafi ekki vitað að ég væri að senda honum með öllu ókláraðan kafla. Kannski var hann bara að minna mig á þetta, þetta hefði auðvitað getað slæðst framhjá augum mínum við yfirlestur, slíkt skíttis smotterí.

Og svo geri ég ráð fyrir að þið hafið skoðað myndina af mér sem ég var að skella í prófælinn minn. Því miður var mér meinað að fara svona á skrallið. Ekki skil ég það heldur. Ég er viss um að innst inni þykir öllum þetta töff.

Svo skil ég ekki heldur af hverju mér tekst ekki að gera titil á þessa færslu. Hún hefur því ótitilinn "Án titils", hérmeð birtan. Frumlegt.

Nýjum hæðum í leiðindum var náð um helgina yfir myndinni "Winter passing" sem ástkær systir mín valdi gaumgæfilega á 3 fermetra videoleigunni á Skagaströnd. Will Ferrell náði að vera leiðinlegri en venjulega, þar sem hann reyndi ekki einu sinni að vera fyndinn. Mig minnir þó að ég hafi brosað að einu atriði í myndinni, en ég man ekki hvað það var. Ég verð eiginlega að horfa á hana aftur til að geta sagt ykkur frá því. Þar sem ég er nirfill af Guðs náð þá píni ég mig ævinlega til að horfa á slíkar myndir til enda, þrátt fyrir að ég viti frá fyrstu mínútu að þær verði ekkert annað en leiðinlegar, vegna þess eins að einhver hefur eytt í þær 500 krónum (per mynd). Ég hef því séð óhemju magn af myndum sem þessari. Sumir myndu kannski kalla þetta nytjahyggju. Winter passing má þó eiga það að hún ber titil með rentu, þar sem mér leið sem vetur hefði liðið þegar hún loksins tók enda. Mæli eindregið með henni.

(Án kveðju sem titils, í mótmælaskyni)

þriðjudagur, júní 05, 2007

Af beljum og BA ritgerð.


Þögul mótmæli tekin til greina. Ég er ekki fædd í gær. Þessir hárbeittu, þverpólitísku ádeilupistlar mínir eru greinilega ekki að hitta í mark. Svo við skulum færa okkur um set. Ég á þó engin rauð djásn þessa dagana, nema einar nærbuxur en þær eru einkamál. Ég efa þó ekki að mér muni áskotnast fleiri rauðir og dauðir hlutir er frá líður, og mun þá með glöðu heiðra þá hér og kynna fyrir ykkur.

Ég á auðvitað að vera að skrifa þessa óhroðans BA ritgerð mína en er komin í algjöran dvala eftir að ég tók þá ákvörðun að skila henni í ágúst. Engar áhyggjur þó elskurnar, ég er alveg að vakna af blundinum. Bara svo voðalega gott að kúra aðeins.

Ég fór í stuttan göngutúr fyrr í dag með son minn og varð þar vitni að afar skemmtilegu atferli dýra. Það byrjaði allt með forvitni beljukálfs. Já ég er ekki meiri bóndakona en þetta, beljukálfur var það segi ég. Nokkrir beljukálfar voru saman komnir í litlu afstikuðu stykki (grastúni) að éta þurrkað gras síðan í fyrra, uppúr forláta fiskikari úr hvítu plasti. Kemur þá köttur nokkur, Svampur að nafni , skokkandi inná stykkið og fer að velta sér þar í lítilli moldarholu. Einn beljukálfur horfir undrandi á þetta kvikindi, örlitla stund. Eftir umhugsun þykir beljukálfinum þjóðráð að rjúka í helvítis köttinn, og skokkar lufsulega af stað í átt að honum, baulandi og með hangandi haus. Eins og köttum einum er lagið skýst Svampurinn á augabragði útúr stykkinu, með beljukálfinn á eftir sér, en hefur vit á að láta staðar numið rétt utan við afstikunarprikin. Beljukálfurinn hægir ferðina, staðnæmist við strenginn en getur þó ekki staðist freistinguna. Hann gerir misheppnaða tilraun til að nálgast köttinn og smellir sér utan í strenginn. Við stuðið hoppar hann uppí loftið með fætur út til hliða og aumingjalegt baul fylgir er hann hrökklast, ögn súr, frá strengnum. Við tekur endurskipulagning. Kötturinn dillar sér meðfram strengnum og nýtur þess að hafa þessa stóru skepnu að fífli. Beljukálfurinn tekur á það ráð að kalla á vini sína, dregur þá frá fiskikarinu góða og raða þeir sér allir meðfram strengnum í þeirri von að ná kattaróberminu. 10 beljukálfar hoppandi hver á fætur öðrum við stuð frá rafmagnsgirðingu var þá sjónin sem við mér blasti. Einn var svo gáfaður að sleikja girðinguna, sló met í hástökki og átti að auki besta smellinn. Geri aðrir betur. Þeir skiptust á þarna í nokkrar mínútur áður en þeir létu segjast og sneru aftur að þurrkaða grasinu. Dásamlegt.

Það læðist að mér sá grunur að vitið sé ekki að þvælast fyrir þessum annars ágætu spendýrum. Sýndist þeir vera nákvæmlega jafn heimskir og þeir líta út fyrir að vera. Svo, ef ykkur langar til að sjá beljukálfa dansa línudans, þá er bara að skella sér í heimsókn til mín! Tek það þó fram að mér var ekki sérlega skemmt, þannig lagað, sjálf hef ég hlaupið á rafmagnsgirðingu og það var ekkert sérstaklega þægilegt. Enda endurtók ég það ekki né bauð vinum mínum að taka þátt í heimskunni. Ég hef einnig hlaupið á ljósastaur, ruslatunnu og bíl á ferð, en það er önnur saga.

Horatio Cane er svo án efa ósvalasti karakter sjónvarpsþátta frá upphafi. Einnig misheppnaðasta persónusköpunin, en hann átti greinilega að vera afar töff. Hvernig datt þeim í hug að ráða þennan mann í starfið, og að láta hann tala svona? Horatio er á myndinni þarna uppi, fyrir þá sem ekki þekkja til.

Haldið ykkur nú frá rafmagnsgirðingunum hróin mín, þær leynast víðar en ykkur grunar.

laugardagur, maí 12, 2007

Búseturéttur til sölu!

Þar sem ég er á undan samtíðinni þá hef ég ákveðið að óska tilboða í búseturétt minn á landsbyggðinni. Tilboð skilist til Búfjáreftirlitsmanns Eyjafjarðarsveitar, Bjarna Kristinssonar, fyrir 15. júlí næstkomandi. Búseturétturinn veitir aðgang að búsetustyrkjum sem líklega verða settir á fót á næsta kjörtímabili.

Ástæða þess að ég ákveð að selja réttinn strax er sú að ekki er ótrúlegt að búsetustyrkirnir verði svo afnumdir eftir einhver ár, vegna mikils kostnaðar og vaxandi óánægju þeirra er ekki eiga tilkall til styrkja. Því vil ég vera einn af þeim sem hafa haft vitið fyrir neðan sig, ef svo má segja, og selt árans réttinn áður en hann verður aflagður. Hvað verður um aumingjann sem hefur keypt réttinn, fyrir einhverjar milljónir vænti ég, er mér alveg sama um. Hann getur bara borgað af honum þá án viðhangandi styrkja. Ég mun hafa fengið mitt, gratis, selt og grætt, sátt og sæl, og heimta afnám búsetustyrkja því ég, eins og aðrir, borga þá með mínum skatti. Skuldirnar, sem orðið hafa til vegna kaupa á búseturétti, ætla ég ekki að greiða.

Ég verð brjáluð ef ég má ekki selja búseturéttinn minn og þannig aðganginn að styrkjunum, eins og má í landbúnaðarkerfinu. Þessum rétti á auðvitað bara að úthluta til þeirra sem nú þegar búa úti á landi, hinir sem hyggjast flytja þangað í framtíðinni verða bara að kaupa hann. Þannig hefur svona alltaf verið gert hér, og þykir æði. Köllum það kvóta.

Kveðja,
Kvótakóngurinn.

p.s. einnig óskast tilboð í húnvetnsk atkvæði, fyrstir koma, fyrstir fá. Tilboðin þurfa að vera í formi kosningaloforða.

fimmtudagur, mars 15, 2007

Þetta er Jackson að kenna.

Ég vil byrja á að þakka stuðninginn kæru frænkur. Mér þykir vænt um ykkur. Þið hin megið vera úti. Nei djók. Plís ekki fara.

Í annan stað vil ég bara örstutt tæpa á hinum umdeilda Michael Jackson. Þetta er án efa það versta sem frægð hans og frami hefur leitt af sér. Svei mér þá. Séuð þið ekki sannfærð eftir fyrsta áhorf, horfið þá aftur. Frumgerðin var nógu slæm.

Ein tilraun var svo augljóslega ekki nóg. Þessi var líka gerð. Ég hef fyllst valkvíða.

Og þá er þörf á skoðanakönnun. Ég vísa í þá röð sem ég setti myndböndin fram í.



Til gamans:

Réttupphend sem hafa lent í þessu.

From Russia with love,
Melman.

föstudagur, mars 09, 2007

Piff!

Ég er algjörlega orðlaus yfir því að engin orðræða hafi spunnist um síðustu færslu mína. Eiginlega bara móðguð. Ég bjóst við sjóðandi heitum rökræðum. Það kom ekki einu sinni skitið "Heyr heyr". Sérstaklega er ég hissa á að ekki ein melaskeifa af þeim sem slæðast hér inn öðru hvoru hafi látið svo lítið að leggja orð í belg, svona með vísan til starfsvettvangs forfeðranna. Hnuss. Það var heldur ekki púað á mig. Rakel fær þó prik þó hún hafi enga afstöðu tekið um málefnið, en hún vill augljóslega dansa við mig. Það er alltaf góðverk.

Til að verjast því að þær hugsanir ásæki mig að færslan hafi hvorki verið fugl né fiskur hef ég ákveðið að túlka slök viðbrögð þannig að það hafi engu verið við þetta að bæta, engin gagnrök til og óþarfi að eyða púðri í vonlausar tilraunir til mótmæla. Þetta sé bara borðleggjandi.

Sé það ekki málið þá hóta ég að loka síðunni!

Til gamans:

Ykkar,

Birna með keppnismelaskeifu.

laugardagur, mars 03, 2007

Menn dagsins: Michael and Miles.

Þessir ágætu bræður hafa ákveðið að gerast skjaldberar íslensku sauð- kindarinnar úti í hinum stóra heimi. Eiga þeir heiður skilinn fyrir það, sérstaklega í ljósi þess að illa er að henni vegið á mörkum hins óbyggilega. Hjara veraldar. Nafla alheimsins. Íslandi.

Láta þeir Michael og Miles í té ítarlegan rökstuðning í 9 liðum um val sitt á búfénaði, íslensku sauðkindinni. Má af ráða þá niðurstöðu að sauðkindin góða sé fýsilegur kostur til framleiðslu ýmiss konar varnings. Á meðan grenja Íslendingar og heimta að steralegnir hormónavöðvar frá erlendum verksmiðjubúum verði fluttir í tonnavís til eyjarinnar, til að bjarga þeim frá yfirgangssömum okrurum og einokunardurtum. Íslenskum sauðfjárbændum. Án árangurs hafa bændurnir, skjálfandi á kjötlitlum beinunum, reynt að malda í móinn og spurt hvort hugsanlega sé verið að hengja bakara (bónda) fyrir smið (kaupmann, samlag, Tonyu Harding o.s.frv.). Ísland hefur tekið ákvörðun. Íslenska sauðkindin er að tapa. Framsóknarflokkurinn líka.

En jafnvel á svörtustu tímum getur glitt í von. Nú þurfa sauðfjárbændur að snúa vörn í sókn! Endurskoða þarf tilvist og tilgang sauðkindarinnar. Endurlífga þarf hrútasýningarnar fornu, hefja kynbótaræktun á íslenskri sauðkind með áherslu á geðslag, fótaburð, prúðleika, fegurð á beit, samræmi, réttleika og greind. Kynbótasýningar yrðu haldnar við mikinn fögnuð áhorfenda, landsmót, jafnvel heimsmeistaramót. Einnig yrðu vetrarleikar í rollufimi í boði Landssambands kornbænda, en M&M ku hafa þjálfað kindina til hinna ýmsu kúnsta með handfylli korns að vopni. Þá yrðu íslenskir hrútar seldir erlendis fyrir okurfé, (h)okrarinn í afdalnum myndi stórgræða og greiða góða summu í ríkissjóð. Svo yrði innflutt íslenskt lambakjöt frá Ameríku í kjötborðum verslana, á spottprís að sjálfsögðu. Enda kynbótadýrin hér heima ekki étin. Allir fengju sitt. Nema kannski Framsóknarflokkurinn.

Ég bendi á stolt M&M og prýði, ræktunarhrútana, máli mínu til stuðnings.

Þess má geta að Michael og Miles rækta einnig íslensk landnámshænsni og bjóða m.a. uppá eggjatínslu á landi sínu, gestkomandi til afþreyingar og ómældrar ánægju. Þá hafa þeir aflað sér ítarlegra upplýsinga um sögu nefnds fiðurfénaðar.

Þeim sem vilja kynna sér starfsemi og vöruframboð M&M frekar er bent á forsíðu heimasíðu SweetGaiaFarm.

Að lokum: Hættum að sækja vatnið yfir lækinn, hengja bakara fyrir smið, kasta grjóti úr glerhúsum, kenna árinni, binda endur og allt það. Tökum til í eigin garði og varðveitum þá gersemi sem íslensk sauðkind er. Veljum íslenskt!

--------------------------------------------------------------------------------------

Bændasamtök Íslands styrktu gerð þessa pistils.

ATH: Ég frábið mér allar ásakanir um hagsmunatengsl og afleidda hlutdrægni. Ég á ekki eina einustu rollu.

fimmtudagur, mars 01, 2007



Þessi áróður er aðallega birtur hér sökum þess hve sérdeilis vel hann passar allri umgjörð og útliti síðunnar. Völu Matt er sérstaklega boðið í heimsókn.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Pirrrr

Ég fékk þá snilldar hugmynd að lagfæra og bæta við linkum á þessa aumu bloggsíðu. Aldrei datt mér í hug að það yrði örlagarík ákvörðun. Það er nefnilega svo, að þegar maður fer að laga eitt þá vill maður endilega laga eitthvað meira. Svo mér fannst tilvalið að BREYTA UM ÚTLIT!! Ég meina, hvað getur verið skemmtilegra en það? Svona næstum eins og að fá sér nýja eldhúsinnréttingu, bara ódýrara. Sæl og glöð lít ég yfir afrakstur erfiðis míns, stolt af útkomunni, en sé þá mér til skelfingar að allir linkarnir mínir hurfu. Ánægja mín úldnaði á augabragði. Ég hef reynt að bæta úr þessu, og étið óhemju af súkkulaði með því, en það eru nokkur atriði sem ég er enn afar ósátt við. Setjum þau fram í liðum:

a) Ég er afar ósátt við punktana framan við nöfnin.
b) Ég er ósátt við leturgerðina á linkunum og fyrirsögn linkanna.
c) Mér tekst ekki að gera bil milli links og "recent posts", né bil á nokkrum öðrum stöðum.
d) Mér tekst ekki að breyta leturgerðinni.
e) Ég er örugglega að gleyma einhverjum linkum, ábendingar vel þegnar.
f-ö) Böns af öðru pirri.

Ef þið hafið einhverja lausn á einhverju þessara vandamála þá megiði endilega deila. Ef þið þekkið mig eitthvað þá megiði vita að ég tek ekki til athugunar að "skipta bara aftur um lúkk kommon!", enda er það uppgjöf en ekki lausn. Over my dead body! Frekar nöldra ég útaf þessu fram í rauðan dauðann. Svo í gang með heilana people! Nöguð bílmotta í verðlaun. Vinningshafi getur sótt hana í rústbrúnan Daewoo Matiz sem staðsettur er í Breiðholtinu.

Nú, að öðru. Ég var að hlaða nýjum myndum inná barnaland og setti líka þar inn smá blogg í vefdagbók. Ég er búin að læsa inná albúm og dagbókina, en endilega sendið mér póst á birnalitla@hotmail.com ef þið viljið aðganginn. :) Mamma, ég fer í fýlu ef þú sendir ekki póst. Eða hringir.

Jæja skiturnar ykkar,ég ætla að leggjast uppí rúm og grenja yfir óförum mínum. Mér til málsbóta þá er þetta þriðja tilraun til að skrifa þessa færslu.

Kremjur.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Mottu stolið!

Auglýst er eftir mottu sem stolið var af hlaði Rifkelsstaða 1, Eyjafjarðarsveit, meðan kvöldmjaltir stóðu yfir sunnudaginn 28. janúar síðastliðinn. Mottan er klassísk gólfmotta úr bíl, handunnin úr gúmmíefni með íþrykktu köflóttu mynstri. Hún er talin framleidd um miðjan 8. áratuginn, líklegast erlendis, upphaflega svört að lit en hefur upplitast að einhverju marki. Örlítið nöguð hægra megin, sjálfsagt af hundi. Ekki er ólíklegt að á henni finnist arða af hrossaskít. Að öðru leyti lítur mottan vel út, óslitin og vel hæf til brúks. Síðast sást til mottunnar á bílgólfi Daewoo Matiz, rústbrúnum, árgerð 2001. Þeir sem kunna að hafa orðið mottunnar varir, eða geta gefið upplýsingar um ferðir hennar, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við undirritaða eða Lögregluna á Akureyri. Atvikið er litið alvarlegum augum og verður kært til lögreglu hafi mottan ekki skilað sér innan þriggja daga. Þeir óprúttnu aðilar sem eiga sök á verknaðinum eiga kost á að skila mottunni nafnlaust á hlaðið fyrir dögun mánudaginn 19. febrúar. Að þeim fresti liðnum verður gripið til fyrrnefndra ráðstafana.

Mottan hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir eiganda og er hennar sárt saknað. Því höfða ég til samvisku og góðvildar þess er hefur hana undir höndum; ég skora á þig, þjófur, að láta gott af þér leiða og skila mottunni.

Engin efnisleg fundarlaun í boði, enda verður mottan ekki metin til fjár.

Góðfúslega,
Eigandi.

Óóóó mig auma! (In retrospect)

Eru virkilega engin takmörk fyrir því hvurslags óhroða er hægt að bjóða manni til aflestrar í námi?

Ég skal gefa dæmi:

"The punishment deserved depends on the magnitude H of the wrongness of the act, and the person's degree of responsibility r for the act, and is equal in magnitude toe their product, r x H. The degree of responsibility r varies between one (full responsibility) and zero (no responsibility), and may take intermediate numerical values corresponding to partial responsibility. Thus, the punishment deserved is equal to H when the person is fully responsible for the act, when r equals one, and he deserves no punishment when his degree of responsibility is zero; otherwise H is discounted by (because multiplied by) the person's intermediate degree of responsibility."

Hvenær hættuð þið að lesa? Wait! There's more!!!

"Conversely it does not in the least follow from the admission of the latter principle of retribution in Distribution that the General Justifying Aim of punishment is Retribution though of course (Ó JÁ, OF COURSE!) Retribution in General Aim entails retribution in Distribution."

Segið mér, hvaða tvö orð bergmála í heilagrautum ykkar núna?

Og jú, eftirfarandi er efninu mjöög viðkomandi:

"Even in humans, when it is remembered that sensation during coitus depends upon the degree of irritation between the penis and the vagina, the relation between pain and pleasure during the coital act will be apparent." "The friction between the vagina and the GLANS (reðurhúfa, kóngur, snípshúfa) penis which in one man is sufficient to cause ejaculation, in another will have little or no pleasurable effect, while in yet another instance it may cause soreness, with resultant inflammation."

Eins óspennandi kyn(lífs)fræðslu hef ég sjaldan orðið fyrir.

Ég læt milli hluta liggja að birta viðbjóðslega aftökulýsingu frá ca. 1700 sem nauðsynlegt var að klína inní lesefnið. Hún olli mér ógleði og almennri vanlíðan. Hið óþjálfaða auga gæti giskað á að viðfangsefnið væri stærðfræði eða Tantraboðskapur einhvers konar, en eins og glöggir lesendur hljóta að sjá þá fjallar þetta að sjálfsögðu um refsingar; réttlætingu þeirra og tilvist. Svei mér þá ef þetta opnaði ekki augu mín algjörlega. Svona rétt áður en ég plokkaði þau úr mér, en það gerði ég einmitt rétt áður en ég hjó af mér hendurnar a la Irak. Nei djók.

Góðar stundir.

föstudagur, febrúar 02, 2007

sunnudagur, janúar 28, 2007

Tekið úr birtingu!!

Þessi færsla hefur verið tekin úr birtingu af lesendum. Vinsamlegast snúið ykkur að öðru.
Þakkir.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Fyrir Haddinn.

Engan skæting gott fólk. Eðlileg ritskoðun á mælikvarða yfirvalda í Kína verður viðhöfð á þessa færslu.

1. miðnafnið þitt:
2. Aldur:
3. Single or Taken:
4. Uppáhalds bíómynd:
5. Uppáhalds lag:
6. Uppáhaldshljómsveit:
7. Dirty or Clean:
8. Tattoo eða göt:
9. Þekkjumst við persónulega?
10. Hver er tilgangurinn með lífinu?
11. Myndiru bakka mig upp í slagsmálum?
12. Myndiru þaga yfir leyndarmáli ef það skipti mig máli?
13. Besta minningin þín um okkur?
14. Myndir þú gefa mér nýra?
15. Segðu eitthvað skrýtið um þig:
16. Myndir þú hugsa um mig ef ég væri veik?
17. Getum við hist og bakað köku?
18. Hefuru heyrt kjaftasögu um mig nýlega?
19. Talaru eða hefuru talað illa um mig?
20. Finnst þér ég góð manneskja?
21. Myndir þú keyra með mér hringinn í kringum landið?
22. Finnst þér ég aðlaðandi?
23. Hverju myndiru vilja breyta í mínu fari?
24. Í hverju sefuru?
25. Kæmiru í heimsókn af tilefnislausu, bara til að chilla?
26. Myndir þú koma á stefnumót ef ég myndi bjóða þér?
27. Ef ég ætti einn dag ólifaðann, hvað myndum við gera?
28. Ætlaru að setja þetta á þitt blogg svo að ég geti svarað hjá þér ?

föstudagur, desember 15, 2006

Rauða djásnið # 2

Tími fyrir aðra sögu af rauðu djásni. Ó nei, það er ekki sama djásnið og flutti mig milli staða hér um árið! Það hefur verið selt, fyrir einar 50.000,- kr., og er Daníel á Helgastöðum stoltur nýr eigandi. Við óskum honum að sjálfsögðu til hamingju með drossíuna!

Við erum að tala hér um eldavélina mína. Ó svo fögur. Hún er rauð. Mýrarrauð. Með appelsínugulum tökkum. Ég álít að eldavélinni hafi verið hent einhvern tímann uppúr fyrri heimstyrjöld. Einhverra hluta vegna hefur hún ekki viljað gefast upp, og nú er hún hér hjá mér. Ég veit eiginlega ekki hvort hún telst ennþá til eldavéla í hefðbundinni merkingu, þar sem hún hitnar meira að utan en innan. Mér skilst þær eigi ekki að gera það. En það er allt í lagi. Það er nefnilega ísskápur við hliðina á þessari mögnuðu græju, og þegar verst lætur sting ég bara rassinum þar inn. Assgoti gott. Snillingarnir sem hönnuðu tækið höfðu líka vit á því að setja við í handfangið, svo ef maður passar að hitta á viðinn þá brennir maður sig ekki á annars fagursniðnu málmhandfanginu.

Takkarnir eru líka ofsalega sniðugir. Tölurnar eru allar máðar af, þið vitið: þessar sem segja til um hita, svo maður verður bara að giska. Það gengur misvel. Erfiðast var þetta í fyrstu, þar sem hitinn á hellunum fjórum er rangsælis hækkaður með þar til gerðum appelsínugulum tökkum. Nei, ég lýg, hraðsuðuhellutakkinn er réttsælis. Lengi átti ég ekki til orð yfir því hversu lengi ein hella á hæstu stillingu gæti verið að koma upp suðu á vatni. En þar sem ég er sérdeilis úrræðagóð, þolinmóð og hika ekki við að gera tilraunir, þá fann ég fljótt orsökina. Takkarnir fyrir ofninn, eins og hraðsuðuna, snúast rétt.

Brunalyktin sem gýs upp þegar kveikt er á apparatinu er náttúrulega bara heimilisleg, og reykurinn sem púðrast gegnum lélegt einangrunargúmmí á vinstri hlið ofnhurðar einnig. Smellirnir dularfullu sem heyrast öðru hvoru veita manni félagsskap á dimmum vetrarkvöldum, og eru þessu gæða sírati virkilega til framdráttar. Hún sparar líka rafmagn, því þegar þér hefur tekist að sigrast á viðsnúnum tökkum og hitað eina hellu, þá geturðu notað allar hinar líka því þær hitna að sama skapi.

En, nú eru tímamót framundan. Við neyðumst líklega til að láta þessa elsku frá okkur. Það er öryggi barnanna sem knýr okkur til þess, aðallega drengsins þar sem stúlkan er orðin 5 ára og búin að læra að forðast Old Red. Það er hitinn og vöntun á barnalæsingu á hurð nánar tiltekið. En, eins manns dauði er annars brauð, eins og við segjum í sveitinni, og eru þetta því góðar fréttir fyrir ykkur dyggu lesendur. Þið hafið nú tækifæri til að eignast þennan stórbrotna grip sem geymir matar-menningarsögu þjóðarinnar á 20. öld og gott betur. Fýsilegur kostur í vali á raftækjum, og stöðugur klettur í ólgusjó breytinganna! Ekki er merkið af verri endanum, en eftir stendur einn stafur af því, X, og það er alveg örugglega ekki Elektrolux!

Nú, tækið er falt, en einungis fáist viðunandi tilboð. Þar sem gamli hlunkurinn er ekki einungis antík, heldur einnig ástæða til að selja hann sem hönnun, þá er lágmarkstilboð 500.000,- krónur íslenskar. Þið getið gert tilboð hér á síðunni, nú eða haft samband við mig í síma. Fáist ekki rétt verð, verður gripurinn látinn á einhvern þeirra skipulögðu ruslahauga sem eru hér í grennd, svosem Smámunasafn Sverris Hermannssonar, eða Iðnaðarsafnið á Akureyri. Möguleiki er að Þjóðminjasafninu verði boðinn hann til eigu, geti þeir sótt. Þá mun líklega fylgja gömul loftpressa. Þið getið þá fengið nasaþefinn af fágætum eðalgrip á einum þessara staða, séuð þið of samansaumuð til að kaupa hann.

Telst nú uppboð formlega hafið, vinsamlegast gerið tilboð.

Virðingarfyllst, Uppboðshaldari.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Ertu hrædd við auga?

Enginn að fíla kiddann ha?

Ég og dóttir mín fórum í sniðugan leik í gærkvöldi áður en hún fór að sofa. Hún kenndi mér leikinn áður en við byrjuðum, og fólst hann í því að annar átti að spyrja hinn "Ertu hræddur við........?" og ef svo var átti "hinn" að blikka augum. Hófst svo leikurinn. Um ýmislegt var spurt; skrímsli, drauga, svín, naut, fugla, geitur, krókódíla o.s.frv. Svo spyr daman "Ertu hrædd við....... AUGA??" og hlær mikið. "Pffff auga?" spyr ég hneyksluð, "hver heldurðu að sé hræddur við auga?" Ég blikka að sjálfsögðu ekki augum, en við hlæjum örlítið að þessu báðar tvær.

Þegar hún var farin að hrjóta fór ég að hugsa. "Ertu hrædd við auga?" Áhugaverð spurning. Ég held bara að barnið hafi hitt naglann á höfuðið með þessari spurningu. Ég meina, hvaða líkamshluta eða líffæris er oftar vísað til en augnanna þegar á að höfða til ógnar og hræðslu? Hver kannast ekki við "Stingandi köld augu hans fengu hárin til að rísa...." og viðlíka lýsingar í rituðum frásögnum? Aldrei sér maður "Vegna bræði tútnaði fótur hans svo líkþornið gaf sig undan þrýstingi.." eða "Frostsprungið nefið sem beindist að mér nísti inn að beini". Eins er þegar fólk sér eitthvað "skerí" við aðra, þá hafa augun yfirleitt eitthvað með það að gera. "Æi, hann er bara eitthvað svo furðulegur til augnanna" er ofsalega vinsæll frasi. Hvers vegna ætli þetta sé? Hvernig ætli augun, umfram aðra líkamsparta, hafi unnið fyrir þeim heiðri að teljast gefa vísbendingu um innri mann? Endilega svarið gott fólk ;) Og segið mér, eruð þið hrædd við AUGA?

Þessi pistill var í boði "EvilEye" linsuvökva sem hreinsar, mýkir og lyftir augunum svo virðist undurblíð! Buy Now, and get a free "EvilEye" nightlight!!!!!