föstudagur, desember 15, 2006

Rauða djásnið # 2

Tími fyrir aðra sögu af rauðu djásni. Ó nei, það er ekki sama djásnið og flutti mig milli staða hér um árið! Það hefur verið selt, fyrir einar 50.000,- kr., og er Daníel á Helgastöðum stoltur nýr eigandi. Við óskum honum að sjálfsögðu til hamingju með drossíuna!

Við erum að tala hér um eldavélina mína. Ó svo fögur. Hún er rauð. Mýrarrauð. Með appelsínugulum tökkum. Ég álít að eldavélinni hafi verið hent einhvern tímann uppúr fyrri heimstyrjöld. Einhverra hluta vegna hefur hún ekki viljað gefast upp, og nú er hún hér hjá mér. Ég veit eiginlega ekki hvort hún telst ennþá til eldavéla í hefðbundinni merkingu, þar sem hún hitnar meira að utan en innan. Mér skilst þær eigi ekki að gera það. En það er allt í lagi. Það er nefnilega ísskápur við hliðina á þessari mögnuðu græju, og þegar verst lætur sting ég bara rassinum þar inn. Assgoti gott. Snillingarnir sem hönnuðu tækið höfðu líka vit á því að setja við í handfangið, svo ef maður passar að hitta á viðinn þá brennir maður sig ekki á annars fagursniðnu málmhandfanginu.

Takkarnir eru líka ofsalega sniðugir. Tölurnar eru allar máðar af, þið vitið: þessar sem segja til um hita, svo maður verður bara að giska. Það gengur misvel. Erfiðast var þetta í fyrstu, þar sem hitinn á hellunum fjórum er rangsælis hækkaður með þar til gerðum appelsínugulum tökkum. Nei, ég lýg, hraðsuðuhellutakkinn er réttsælis. Lengi átti ég ekki til orð yfir því hversu lengi ein hella á hæstu stillingu gæti verið að koma upp suðu á vatni. En þar sem ég er sérdeilis úrræðagóð, þolinmóð og hika ekki við að gera tilraunir, þá fann ég fljótt orsökina. Takkarnir fyrir ofninn, eins og hraðsuðuna, snúast rétt.

Brunalyktin sem gýs upp þegar kveikt er á apparatinu er náttúrulega bara heimilisleg, og reykurinn sem púðrast gegnum lélegt einangrunargúmmí á vinstri hlið ofnhurðar einnig. Smellirnir dularfullu sem heyrast öðru hvoru veita manni félagsskap á dimmum vetrarkvöldum, og eru þessu gæða sírati virkilega til framdráttar. Hún sparar líka rafmagn, því þegar þér hefur tekist að sigrast á viðsnúnum tökkum og hitað eina hellu, þá geturðu notað allar hinar líka því þær hitna að sama skapi.

En, nú eru tímamót framundan. Við neyðumst líklega til að láta þessa elsku frá okkur. Það er öryggi barnanna sem knýr okkur til þess, aðallega drengsins þar sem stúlkan er orðin 5 ára og búin að læra að forðast Old Red. Það er hitinn og vöntun á barnalæsingu á hurð nánar tiltekið. En, eins manns dauði er annars brauð, eins og við segjum í sveitinni, og eru þetta því góðar fréttir fyrir ykkur dyggu lesendur. Þið hafið nú tækifæri til að eignast þennan stórbrotna grip sem geymir matar-menningarsögu þjóðarinnar á 20. öld og gott betur. Fýsilegur kostur í vali á raftækjum, og stöðugur klettur í ólgusjó breytinganna! Ekki er merkið af verri endanum, en eftir stendur einn stafur af því, X, og það er alveg örugglega ekki Elektrolux!

Nú, tækið er falt, en einungis fáist viðunandi tilboð. Þar sem gamli hlunkurinn er ekki einungis antík, heldur einnig ástæða til að selja hann sem hönnun, þá er lágmarkstilboð 500.000,- krónur íslenskar. Þið getið gert tilboð hér á síðunni, nú eða haft samband við mig í síma. Fáist ekki rétt verð, verður gripurinn látinn á einhvern þeirra skipulögðu ruslahauga sem eru hér í grennd, svosem Smámunasafn Sverris Hermannssonar, eða Iðnaðarsafnið á Akureyri. Möguleiki er að Þjóðminjasafninu verði boðinn hann til eigu, geti þeir sótt. Þá mun líklega fylgja gömul loftpressa. Þið getið þá fengið nasaþefinn af fágætum eðalgrip á einum þessara staða, séuð þið of samansaumuð til að kaupa hann.

Telst nú uppboð formlega hafið, vinsamlegast gerið tilboð.

Virðingarfyllst, Uppboðshaldari.