föstudagur, júní 05, 2009

Fyrir Dís


Listaverkið kallast "rúsínan í pylsuendanum". Höfund þekki ég ekki. Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 12, 2009

Uppbygging hafin

Ég held að hæfileiki minn til að blogga hafi farið að heiman þegar við yfirgáfum "loftið" í sumar og settumst að hérna uppfrá. Margt hefur gerst síðan. Komin full swing kreppa og allt. Kannski er hæfileikinn minn farinn úr landi. Reyndar ekkert voðalega margt fyndið í gangi, meira svona dauði og matarmiðar útum allt. Ég kemst ekki einu sinni gegnum Svínó lengur án þess að mæta hrúgu af heldri borgurum. En ég nenni ekki að tala um kreppu.

Nú. Þá vandast málið. Mér finnst reyndar alltaf svolítið fyndið að tala um Alvegsama O'samason. En ég á ekki von á því að öðrum finnist það fyndið. Ég man heldur ekki söguna um hann. Haddur man hana kannski.

Ég vona að þið hendið í mig beini hérna, Róm verður ekki (endur)byggð á einum degi. Ég gæti þurft smá tíma til að komast á skrið. Ég gæti líka klárað þetta strax, misþyrmt ykkur og svipt allri lífslöngun með því að setja hér inn glósur og tímaupptöku úr Aðfarargerðum. Kýs að gera það ekki að svo stöddu.

Ég get sagt ykkur að ég er hvorki meira né minna en barnabarnabarnabarnabarnabarnabarnabarnabarnabarnabarnabarn Jóns Arasonar biskups, sem var hálshöggvinn í Skálholti í gamla daga. Elsku afi gamli. Fokk, á ég ekki bara að skipta yfir í kreppuna? Kreppan er alls staðar. Hún er þó hvergi eins djúp og innra með okkur. Djúp, djúp lægð sem enginn veðurfræðingur getur kortlagt. Við höfum áttað okkur á því að uppskriftin okkar virkaði ekki. Kakan féll, rétt áður en hún brann við. Hún myglaði líka. Hún er reyndar enn í ofninum, skilst það standi ekki til að taka hana þaðan. Skipið, þjóðarskútan, fleyið, sem við sigldum svo stolt, fékk á sig brot, ryðgaði, strandaði og sökk. Það er enn á hafsbotni, varið af hákörlum, hulið með þörungum. Þá er ekkert annað í boði, en að synda í land. Ég ákalla ykkur, ríkisstjórn:

http://www.youtube.com/watch?v=0WwlrN6YOY4&feature=related

Þarna má sjá þjóðarskútuna í ýmsum útgáfum. Vonandi tíma Jóhanna og Steini að viðhalda ljóstýru í vitanum. Er þér orðið flökurt? Ég skal hætta.

Hahahahahahhaha. Vörutorg hefur nú hafið sölu á unaðstækjum ástarlífsins. Hringið í Daníel Ben og pantið, strax í dag!

Ég ætla ekki að standa að frekari pyntingum að sinni.

Ísland - lán í óskilum.

föstudagur, júní 27, 2008

Kröftug sem Kiwanisklúbbari!

Þetta er nú meiri lame ass síðan hjá mér. Ég er alveg búin að týna sjálfri mér í aðgerðarleysi og aumingjaskap. Andskotinn! Hvar er orkan og djöfulgangurinn sem ég ætlaði alla að drepa með þegar ég var krakki? Nú er ég bara sófakartafla í yfirþyngd sem nennir ekki einu sinni að brjóta saman þvottinn sinn. Ég væri einhvers staðar rúmföst með legusár og í áskrift að svampböðun hefði einhverjum dottið í hug að gefa mér rítalín í æsku, miðað við orkufallið. Heppnir eru svampbaðarar framtíðar að ég er ekki barn í dag.

Að öðru.

Við gerðum mikla reysu við Sindri fyrir nokkru, á suðurlandið nánar tiltekið. Það var á fyrsta laugardegi eftir skjálfta. Tilgangur ferðarinnar var að sækja þennan ágæta og efnilega ungfola sem nota skyldi til að sinna hryssum hér á bæ í sumar. Þið pínu sveitó skiljið hvað ég er að fara. Sindrinn var að vonum mjög spenntur og brunuðum við af stað frá Skagaströnd kl. 8:00 að morgni, barnlaus og alles. Við stórbýlið Grænumýri (sunnan við Brú) sáum við fyrsta bíl kiwanisklúbbsins, sem við skulum nefna Glóbert. Var hann hörmulega illa staðsettur þar á blindhæð, kyrrstæður með hazardinn á, svo bóndinn með hestakerruna þurfti að taka óþarfa áhættu við að komast framhjá honum. Tilheyrandi röfl fylgdi að sjálfsögðu, frá okkur báðum. Í kringum bílinn voru ráfandi nokkrir vel merktir meðlimir kiwanisklúbbsins Glóberts, í grænum neonvestum eins og vera ber. U.þ.b. 5 kílómetrum síðar komum við að öðrum bíl kiwanisklúbbsins Glóberts. Var sá einnig með hazardinn á, en þó ekki alveg kyrrstæður. Hann sniglaðist á ca. 20 km hraða, en staðnæmdist svo, og úr aftursætinu lufsaðist neongræn feitabolla, trúlega í svefnrofunum, slæddist niður vegkantinn, týndi upp eitt bréf, andvarpaði, og lagði svo upp vegkantinn á ný og inní bíl. Bíllinn silaðist aftur af stað. Við keyrðum framhjá 3 slíkum bílum og nokkrum neongrænum silakeppum í viðbót áður en við fórum að keyra niður af heiðinni aftur. Aldrei var silakeppur í meira en 10 metra fjarlægð frá bíl.

Er það svona sem rusl er tínt í dag? Ruslatínsla í þágu umhverfisins, þar sem 5 bílar í lausagangi, með tilheyrandi hættusköpun á vegum, eldsneytisbrennslu og mengun, eru notaðir til að ferma menn milli kókdósa og bréfsnifsa á stangli í vegkantinum. Auðvitað þurfti bílstjóra í hvern bíl, þeir hlupu ekki út að tína ruslið. Ég var algjörlega bit á þessu. Hefði vel skilið einn bíl með kerru, til að staðsetja mennina og vera þeim innan handar, og hirða girðingartægjur og annað í stærri kantinum. En ekki 5 bíla á þessum stutta kafla. Ef einhver veit hver stóð fyrir þessu þá má sá hinn sami endilega gefa sig fram. Annars er auðvitað alltaf gott framtak að tína rusl.

Nú, ferðin góða endaði svo hér heima um kl. 21:00 sama dag, kl. 13:00 vorum við hjá Hellu og kl. 17:30 í Staðarskála. Hvergi var stoppað meira en 10 mínútur. Við hefðum reyndar verið aðeins fljótari hefðum við ekki villst með hestakerruna uppí efra-breiðholt. Aldrei er þetta gatnakerfi í Reykjavík eins og það var síðast þegar maður kom. Þess má svo geta að moggabíllinn fór allavega 5 sinnum framúr grænu þrumunni með hestakerruna á leiðinni frá Bifröst til Akureyrar. Hann hefur eflaust verið mjög ánægður með að við skyldum ná honum í hvert sinn sem hann þurfti að henda út blöðum. Reyndar rétt slapp hann á undan okkur eftir að hafa hent út blöðum í Víðigerði. Ég sá hvernig hann þyrlaðist af stað á planinu þegar hann sá glitta í grænu þrumuna, og hikaði ekki við að svína á þessa andstyggilegu plágu sem fylgdi honum alla leið. Skiljanlega, nýbúinn að fá okkur framúr sér við Hvammstanga eftir að hafa sjálfur tekið framúr við Reyki. Honum var mikið veifað í síðasta skiptið sem hann þeytti ryki yfir okkur, í Hörgárdalnum.

Það verður svo að fylgja sögunni að hestinum góða, sem allt þetta ferðalag snerist um, var skilað núna á dögunum, eftir mikla leit að fari heim fyrir hann. Hann reyndist eftir allt aðeins hafa eitt eista, og því ónothæfur með öllu. Eins og hann var nú álitlegur og bóndinn ánægður með hann. En ferðin var góð.

Nýjung: "Fleyg orð úr fasteignaauglýsingum" mun hefja hér göngu sína með næsta bloggi. Fylgist með.

Túrílú.

sunnudagur, mars 16, 2008

Ótímabær öldrun

Ég er með ljótuna. Á háu stigi. Þar að auki virðist skinnið vera að leka af fésinu á mér. Mér líst illa á það. Einhverra hluta vegna hefur heilum ættbálki af hrukkum þótt þjóðráð að setjast að hjá mér. Ég hef aldrei kunnað að meta boðflennur.

Nú er ég ekki nema 26 ára, í blóma lífsins. Það er þó eins og Guði hafi þótt fyndið að setja sveskjur í augntóftirnar á mér áður en hann potaði augunum þangað. Ef einhvern vantar efri augnlok þá á ég slatta aflögu. Í það minnsta nóg í 2-3 sett. Einnig er möguleiki á neðri augnlokum. Ennið á mér virðist svo hafa fengið sitt tískuvit á bingókvöldi eldri borgara. Upp á sitt einsdæmi lagðist það í hrukkusöfnun og myndi helst sæma áttræðum sjómanni eins og það stendur í dag. Ég á þó ekki von á að góðæri áttræða sjómannsins standi lengi yfir, eins og hraðinn hefur verið á þessu. Mætti kannski athuga hvort séns væri á að fá ellilífeyri að tiltölu við krumpurnar, það væri örlítil skaðabót. Svo er það síðasta áhyggjuefnið í öldrunarkategoríunni; óvenjumikil áhrif þyngdaraflsins. Andlitið hefur beinlínis sigið. Já, SIGIÐ! Ég er komin með búlldog kinnar. Og svo er það helvítis hökusepinn. Þar hefur þyngdaraflið helst sigrað mig. Nú er skinnið spennt frá hökubroddi og í skálínu niður að miðjum hálsi. Það á að liggja fast að kjálkanum og svo taka vinkilbeygju niður hálsinn. Ég get alveg sagt ykkur það að ákvörðun skinnsins um að stytta sér leið þarna niður gerir ekkert fyrir hliðarsvipinn minn. :(

Nú, síðast en ekki síst. Rauðir þurrkuklasar og einhvers konar bóluútbrot eru að hertaka krumpufésið þessa dagana. Þetta á sér helst stað efst á nefbeininu og í vinstri kinn. Ferlega ósmart, og ekki til að lífga uppá ástandið. Ég gerði mér ferð í dag að reyna að versla einhver töfrakrem til að lækna þennan fjanda, en þegar á hólminn var komið týmdi ég ekkert að kaupa nema andlitstóner og hreinsiklúta frá Nivea. Enda trúlega best að láta fagfólk um þetta héðan af. Þurrkurnar og tónerinn prufaði ég áðan, og uppskar lítið annað en augn- og húðsviða. Við sjáum hvað setur, þetta í það minnsta verður ekki mikið verra.

Já, fésið á mér fellur hraðar en íslenska krónan og úrvalsvísitalan samanlagt. Þið finnið mig í krumpukremadeildum allra helstu stórmarkaða, þar sem ég er leitandi leiða til að líða betur í mínu eigin, krumpaða skinni. Það er þó einn kostur. Ég er ekki orðin alveg jafn illa haldin og skóauglýsingargaurinn hérna til hliðar. Hann er viðmiðið núna. How sad.

Meðfylgjandi er mynd af mér á góðum degi á næsta ári. Verið viðbúin.


Góðar stundir.

mánudagur, febrúar 11, 2008

Hver veit?

Dís fær bingókúlu og maltbauk. Svarið kom mér verulega á óvart.Það er bara ekki laust við að mig langi til að sjá þessa mynd: http://www.miltonmedia.com/film/showroom/alisons_baby.html

Kveðjur,
the Zombie

þriðjudagur, desember 04, 2007

Ein spurning.

Af hverju er alltaf bréfpoki við höndina í sjónvarpinu þegar einhver fer að grenja og þjást af oföndun?

Ég lenti í þessu um daginn. Fór að grenja svona skyndilega, án skiljanlegrar ástæðu, þegar ég var að fara að sofa. Grenjaði svo mikið að ég náði ekki andanum, andaði grunnt, hratt og illa. Ofandaði sumsé. En það var enginn bréfpoki við höndina. Mannfýlan mín vaknaði ekki upp og rétti mér bréfpoka. Ef ég hefði verið í sjónvarpinu hefði hann gert það. Vaknað, rétt mér nýstraujaðan bréfpoka, knúsað mig. Jafnvel grátið aðeins með mér, af samúð. Það sem hann gerði raunverulega var að umla eitthvað um beljur. Ég er nokkuð viss um að það eru algengari viðbrögð en að töfra fram bréfpoka. Hugsanlega hefði hann getað töfrað fram smokk fyrir mig til að anda í, ef hann hefði haft nægt meðvitundarstig til þess. En það hefði örugglega ekki hjálpað. Svona til að hræða ykkur ekki þá var þetta bara fyrirtíðaspenna af leiðinlegri sort.

Reyndar, þegar ég hugsa þetta aðeins betur, þá hefur þetta gerst áður. Þá var í raun bréfpoki við höndina. En það voru allt aðrar aðstæður, og tilvist bréfpokans þar fullkomlega rökrétt. Mamma, þú vilt örugglega hætta að lesa núna. Það var þegar ég var haugafull, hangandi á lægsta grindverki sem ég hef augum barið, fyrir utan félagsheimilið Laugarborg hér í sveit. Þar var haldið svokallað "hommaball" Menntaskólans á Akureyri. Góður snobbskóli sem þið hafið örugglega heyrt um. Unnusti minn til margra ára var þar að spila á trommur með hljómsveit sinni, Gras, sem spilaði fyrir dansi, en við þekktumst ekki. Nú lá ég þarna á grindverkinu og ofandaði auk þess sem ég grenjaði stíft. Skyndilega fékk ég bréfpoka í hendurnar, og var ítrekað sagt að anda í pokahelvítið. Ég andaði í pokann og um það leyti sem ég var að ná tökum á önduninni heyrði ég útundan mér "löggan er að koma!" og ég var umsvifalaust tekin í fang einhvers og borin niður í búningsherbergi hljómsveitarinnar "Gras". Undir borði inní því herbergi hélt ég áfram að anda í pokann minn nokkra stund. Ég hitti svo unnusta minn til margra ára í partýi á Akureyri seinna þessa nótt. Hann bjargaði mér frá því að detta niður stiga. Við töluðum saman í einhvern tíma áður en hann drapst áfengisdauða í hægindastól. Ég var farin áður en hann vaknaði. Bréfpokann sá ég aldrei aftur. Sjálfsagt hefur hann aldrei aftur fengið að umlykja vodkaflösku eins og honum var ávallt ætlað.

Spennið beltin og hafið með ykkur bréfpoka. Maður veit aldrei hvenær þeir geta komið sér vel. Smokk líka.