þriðjudagur, júní 05, 2007

Af beljum og BA ritgerð.


Þögul mótmæli tekin til greina. Ég er ekki fædd í gær. Þessir hárbeittu, þverpólitísku ádeilupistlar mínir eru greinilega ekki að hitta í mark. Svo við skulum færa okkur um set. Ég á þó engin rauð djásn þessa dagana, nema einar nærbuxur en þær eru einkamál. Ég efa þó ekki að mér muni áskotnast fleiri rauðir og dauðir hlutir er frá líður, og mun þá með glöðu heiðra þá hér og kynna fyrir ykkur.

Ég á auðvitað að vera að skrifa þessa óhroðans BA ritgerð mína en er komin í algjöran dvala eftir að ég tók þá ákvörðun að skila henni í ágúst. Engar áhyggjur þó elskurnar, ég er alveg að vakna af blundinum. Bara svo voðalega gott að kúra aðeins.

Ég fór í stuttan göngutúr fyrr í dag með son minn og varð þar vitni að afar skemmtilegu atferli dýra. Það byrjaði allt með forvitni beljukálfs. Já ég er ekki meiri bóndakona en þetta, beljukálfur var það segi ég. Nokkrir beljukálfar voru saman komnir í litlu afstikuðu stykki (grastúni) að éta þurrkað gras síðan í fyrra, uppúr forláta fiskikari úr hvítu plasti. Kemur þá köttur nokkur, Svampur að nafni , skokkandi inná stykkið og fer að velta sér þar í lítilli moldarholu. Einn beljukálfur horfir undrandi á þetta kvikindi, örlitla stund. Eftir umhugsun þykir beljukálfinum þjóðráð að rjúka í helvítis köttinn, og skokkar lufsulega af stað í átt að honum, baulandi og með hangandi haus. Eins og köttum einum er lagið skýst Svampurinn á augabragði útúr stykkinu, með beljukálfinn á eftir sér, en hefur vit á að láta staðar numið rétt utan við afstikunarprikin. Beljukálfurinn hægir ferðina, staðnæmist við strenginn en getur þó ekki staðist freistinguna. Hann gerir misheppnaða tilraun til að nálgast köttinn og smellir sér utan í strenginn. Við stuðið hoppar hann uppí loftið með fætur út til hliða og aumingjalegt baul fylgir er hann hrökklast, ögn súr, frá strengnum. Við tekur endurskipulagning. Kötturinn dillar sér meðfram strengnum og nýtur þess að hafa þessa stóru skepnu að fífli. Beljukálfurinn tekur á það ráð að kalla á vini sína, dregur þá frá fiskikarinu góða og raða þeir sér allir meðfram strengnum í þeirri von að ná kattaróberminu. 10 beljukálfar hoppandi hver á fætur öðrum við stuð frá rafmagnsgirðingu var þá sjónin sem við mér blasti. Einn var svo gáfaður að sleikja girðinguna, sló met í hástökki og átti að auki besta smellinn. Geri aðrir betur. Þeir skiptust á þarna í nokkrar mínútur áður en þeir létu segjast og sneru aftur að þurrkaða grasinu. Dásamlegt.

Það læðist að mér sá grunur að vitið sé ekki að þvælast fyrir þessum annars ágætu spendýrum. Sýndist þeir vera nákvæmlega jafn heimskir og þeir líta út fyrir að vera. Svo, ef ykkur langar til að sjá beljukálfa dansa línudans, þá er bara að skella sér í heimsókn til mín! Tek það þó fram að mér var ekki sérlega skemmt, þannig lagað, sjálf hef ég hlaupið á rafmagnsgirðingu og það var ekkert sérstaklega þægilegt. Enda endurtók ég það ekki né bauð vinum mínum að taka þátt í heimskunni. Ég hef einnig hlaupið á ljósastaur, ruslatunnu og bíl á ferð, en það er önnur saga.

Horatio Cane er svo án efa ósvalasti karakter sjónvarpsþátta frá upphafi. Einnig misheppnaðasta persónusköpunin, en hann átti greinilega að vera afar töff. Hvernig datt þeim í hug að ráða þennan mann í starfið, og að láta hann tala svona? Horatio er á myndinni þarna uppi, fyrir þá sem ekki þekkja til.

Haldið ykkur nú frá rafmagnsgirðingunum hróin mín, þær leynast víðar en ykkur grunar.