föstudagur, október 26, 2007

Óður til elliheimilis

Bara í gær var ég 16. Þá fannst mér ég fullorðin. Í fyrradag var ég 10. Þá skildi ég ekki fullorðna. Í dag, eða eftir 15 daga, er ég 26. Ég er barn. Ég er barn sem varð allt í einu fullorðið. Tók varla eftir því. Ég spila með, því ég á að gera það, en í rauninni vil ég bara vera í play station.

Ég vil hlaupa í snjónum, búa til gildrur fyrir ruslakallana, henda snjóboltum í rúður og njósna um eldri krakkana. Já, ég var leiðinlegt barn. Er leiðinlegt barn. Ég vil elta ömmu inní búr því ég veit að þar er súkkulaði. Súkkulaðið í mínu búri er ekki jafn gott. Ég vil vera skömmuð fyrir að vera með hávaða í fjárhúsunum. Ég á engin fjárhús. Reyndar keypti Sindri tvær gimbrar um daginn. Nei þrjár. Hann vildi ekki kaupa þessa sem mig langaði í. Ég vil heyra andvarp og "voðalegt vesen er á þér Birna mín" í kjölfarið. Eða nei. "Ætli það verði ekki að vera" má líka missa sín. Ég vil spila badminton fram eftir allri nóttu í götunni minni. Ég vil leika mér í heyi og sitja í skottinu á bílnum. Mig langar líka að fá grænan frostpinna þegar ég er búin að borða á Greifanum. Ég vil renna mér á uppblásinni gúmmíslöngu innan úr traktorsdekki. Hver vill koma með? Englar. Ég þarf að búa til engla í snjónum. Helst horfa á stjörnurnar meðan ég er að því.

Allt þetta gerist nú innra með mér. Samfélagið leyfir mér ekki að vera barn lengur. Ég leyfi mér ekki að vera barn lengur. Það reynir oft að brjótast fram, við misgóðar undirtektir þeirra sem vitni verða að því. Þeim fer sífellt fækkandi sem vilja spila play station. Ég náði sjálfsagt í eina kallinn í veröldinni sem nennir alls alls ekki að vera barn lengur. Sökks, huh!? Enginn er til í að henda snjóboltum í rúður. Svo ég les bara lögfræði. Lögfræði er leiðinleg. Lögfræði er fyrir fullorðna. Ég er bara barn.

Ég spila meira að segja svo vel að (vonandi bara sumt) fólk telur mig kalda. Einn bekkjarbróðir minn gekk svo langt að segja að ég væri úr járni. Og bætti því við að "allir strákarnir í bekknum (4) héldu að ég gæti ekki grátið". Ég varð hissa. Svo hissa að ég fór næstum að gráta. Ég er meistari í grenji. Þ.e. barnið. Innra með mér. Enda er ég í raun viðkvæm. Lítil og viðkvæm stelpa sem varð skyndilega feit. Afi er farinn að kommenta á það. "Rosalega er hún orðin sver" sagði hann við mömmu. Eða pabba. Þá var ég reyndar ólétt. En samt. Ég fór næstum að gráta, enda viðkvæm. Fólk sér fituna. Af hverju sér það ekki viðkvæmni líka? Ég er svo full og útbólgin af tilfinningum að ég er að springa. -kafn- Já ég er bara full. Pay no attention to me. This will be erased tomorrow.

Vertu velkominn afmælisdagur nr. 26, ef þú nærð mér. Ég verð í play station.

mánudagur, október 22, 2007

Xavier rekinn!

Xavier hefur ekkert mætt í vinnu síðan hann var ráðinn. Honum hefur verið sent uppsagnarbréf. Nafnið tók ég yfir, enda mun ég skrifa fyrir hans hönd um sinn. Nóg um það.

Það er aldrei heiðarlegt að sparka í liggjandi fólk. En standandi - jaaaá - sparkið að vild.

Ég lenti í áhugaverðum og heimspekilegum umræðum í dag. Topicið var "er fólk alltaf sammála?". Niðurstaðan var sú að við getum ekki vitað það. Þó fólk segist ekki vera sammála, þá gæti það samt verið sammála sjáiði. Hver veit. Kannski erum við öll sammála. Áhugavert. Sammála?

Venni Páer verður ekkert skemmtilegri í endursýningu.

Ég hlakka til jólanna. Kann vel við þau. Svo jólaleg. Jólaleg jól, jólaleg jól. Efni í frumlegt og jólalegt jólalag.

Takið einhvern daginn í að telja hve oft þið heyrið "já sæll", "já fínt" og "eigum við að ræða það eitthvað". Minnir mig á miltisbrandinn. Af hverju eru allir hættir að tala um hann?

Ég fékk ekki salmonellu þó ég hafi borðað hráan kjúkling. Heppin.

Queen eða Simply Red?

Það er víst sparnaður að vera með yfirdrátt hjá S24. Sparnaður er teygjanlegt hugtak.

Ég ætla að hætta áður en þetta verður leiðinlegra en skattalögin.

Kram og kossar.
X

sunnudagur, október 21, 2007

Ráðning í stöðu.

Í kjölfar uppsagnar minnar hér á síðunni hófst mikil vinna við að ráða í hina auglýstu stöðu sem þá losnaði. Hef ég nú ráðið í starfið, eftir mikla ígrundun og erfitt val milli fjölmargra efnilegra umsækjenda. Nýr starfsmaður kýs að kalla sig XXX Xavier eða Xavier. Var honum nýverið sagt upp störfum á einhverjum virtasta fjölmiðli landsins. Ástæðuna segir hann sögusagnir um meint morð hans á frekar ljótri en sprelllifandi rottu.

XXX Xavier hefur störf nú þegar.

Gaman er frá því að segja að Xavier mun ganga tilfallandi erinda hér í nágrenni bæjarins auk pistlaskrifa. Er þar aðallega um að ræða umhverfisvæna meindýraeyðingu. Þá hefur hann einnig með höndum starf aðalráðgjafa borgarstjóra.

Ég býð Xavier velkominn til starfa. Þá þakka ég veittan áhuga á stöðunni, hlý orð og kveðjugjafir.

Góðar stundir.