fimmtudagur, maí 25, 2006

Geysp

Nú eru tveir klukkutímar síðan Ungfrú Ísland hófst. Skiptar skoðanir eru um keppnina, sem og allar fegurðarsamkeppnir, og sætir hún m.a. gagnrýni femínista fyrir að bera á borð staðalímyndir fyrir konur sem ómögulegt er að lifa eftir. Þá er það gagnrýnt hvernig hægt sé að keppa í fegurð, hún sé afstæð, og hæfileikinn að spranga um gólf með bros á vör sé falinn í hvaða heilalausa apa sem er. Gott og blessað, ég ætla ekkert að segja um þessi mál, enda tel ég að við höfum því miður stærri fiska að steikja hvað varðar staðalímyndir.

Ég er með aðra gagnrýni á þessa keppni. Hversu FÁRÁNLEGA LEIÐINLEG getur ein keppni verið?? For fuck sake!!! Ég verð bara að taka ofan fyrir þeim sem halda það út að horfa á þennan horbjóð í rúma tvo klukkutíma. Þau skipti sem ég skipti milli stöðva til að sjá hvort eitthvað spennandi væri að ske voru annað hvort auglýsingar, stelpa að þvæla um áhugamálin sín eða stelpa að labba. Það var ekki nóg með að hún væri ekkert að gera annað en að labba, heldur labbaði hún eins hægt og mannskepnunni er mögulegt. Eins og nýborin kerling, vantaði bara sethringinn í eftirdrag. My o my, ég á ekki orð yfir leiðindin. Hvað eruð þið að tala um þátttakendur, ég spyr frekar hvar er heilabaunin í fólkinu sem virkilega hefur gaman að því að horfa á þetta? "A day in the life of a coma patient", það kalla ég sjónvarpsefni!!

Og þegar ég hélt að keppnin gæti ekki orðið mikið leiðinlegri birtist mér Friðrik Ómar, syngjandi "You are so beautiful" af mikilli innlifun. Bara kreist andlitið fær mig til að vilja plokka úr mér augun og henda þeim í frystinn. Nei heyrðu!!! Bwaaaahahahahhaha nú datt Unnur Birna. It suddenly got interesting. Æi greyið. En ég meina, ef einhver kona hefur efni á því að detta, þá hlýtur það að vera hún.

Ohh ég er svo langorð alltaf. Best að ég hætti. Af þessum ástæðum ofantöldum, og engum öðrum, hreinlega skil ég bara ekki hvers vegna fegurðarsamkeppnir eru til. Ennþá síður hvers vegna þeim er sjónvarpað. Ég vildi að þeir hefðu endursýnt þátt um pöddur á RÚV á sama tíma, ég hefði ljáð þeim áhorf mitt.

Góðar stundir.

mánudagur, maí 22, 2006

Bjössi Vembill

Ég er hinn nýji Bjössi Vembill. Hef þar með hrifsað titilinn af stórfrænda mínum Birni Sigurðssyni. Hann fær að halda hinum titlinum, Bjössi Rauði. Það er þar til mér dettur í hug að mála hárið rautt, í stíl við vembilinn. Stundum held ég að þetta sé að slitna framan af mér, fóðurþunginn er svo mikill. Andskotans vembill.
Undir vemblinum er svo pínulítil bumba, en heppilega mistaka allir vembilinn fyrir rosalega stóra bumbu utanum alveg rosalega, rosalega stórt barn. Ég spila með, því ég get það. Hver vill vera með vembil og litla bumbu, þegar enginn vembill og stór bumba er í boði?

Það rann hins vegar upp fyrir mér um daginn að þetta ástand er aðeins tímabundið. Dagar hreinræktaðs vembils munu koma áður en ég veit af. Ohh hvað það verður ljúft að mæta í Hagkaup, nýbúin að koma krílinu frá mér, feeling slim as ever, og einhver kunningjakonan sem ég man ekki hvað heitir mun stoppa mig og spyrja: "Gavööð ertu ekki enn búin að eiga, þessi ætlar að láta bíða eftir sér. Jiii, ég held það nú, svo gott að vera þarna í hlýjunni...." o.s.frv. Ætli ég spili ekki bara með þá líka. Hristi vembil með kurteisishlátri.

Það sem óumflýjanlega verður þarna á milli er fæðing. Elskulegur kvensjúkdómalæknir upplýsti mig um það um daginn að fyrsta og önnur fæðing væri eins og svart og hvítt. Og hló. Já konur nytu sko annarar fæðingar! Mér var ekki skemmt. Andskotann ætli hann viti um það. Mér þætti gaman að sjá hann njóta þess að skíta keilukúlu, hvort sem væri í fyrsta eða annað sinn. Jafnvel með hjálp einhverskonar iðnaðardrullusokks, sem engan gæti grunað að væri til annars en að losa stíflaða rotþró. Já ég man alltof vel eftir þessu. Andstyggilegur ananasdjús, klappstýrur, steinrunnin kerling með forláta sogklukku í eftirdragi og blóðmagn sem aðeins sæmir 3ja flokks sláturhúsi. Jah, hver nýtur þess ekki, spyr maður sig. En ég brosti bara kurteisislega framan í karlinn, hann hlyti að vita þetta.

Afsakið orðbragðið. Ég held ég hætti hér.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Rauða djásnið

Ég keyri um á frábærum bíl. Hann heitir Subaru Legacy Station 1987. Frábær. Fráááábær. Eitt gott dæmi um ágæti hans og frábærleika er þegar ég fer í Bónus, eða Svínó eins og dóttir mín vill kalla þá ágætu bútík. Þið vitið þegar maður er að vandræðast með kerruna við bílinn, reyna að tína uppúr henni draslið án þess að hún renni af stað og skaði nærstadda bíla, eða sem verra er: manns eigin bíl ;). Sérstaklega er þetta erfitt þegar það er rok. Þetta er hins vegar aldrei vandamál hjá mér. Ég keyri kerrunni bara duglega utan í bílinn, og hengi hana einhvern veginn á hornið á stuðaranum. Þar stendur hún eins og klettur, og ég get áhyggjulaus raðað í bílinn og skrollað henni svo í næsta kerrubás. Eins og ég sagði: FRÁÁÁBÆR!

Annað dæmi um frábærleika bílsins er að hann hefur kennt mér ýmislegt um eigin hégóma. Yfirleitt keyri ég stolt um á honum, en fyrir kemur að ég skyndilega skammast mín óstjórnlega fyrir djásnið og vil alls ekki láta sjá mig. Nákvæmlega þetta kom fyrir mig í fyrradag.

Ég þurfti að taka bensín, eins og svo oft. Ákvað að renna við í Orkunni við Hagkaup, þið vitið 1. maí og enginn á ferli. Ég keyri inná planið, og sé að við dæluna er einhver svalur gaur á þessum voðalega fína fjölskyldu-rútubíl. Einhverra hluta vegna keyri ég framhjá dælunni, svo langt að það er eiginlega hallærislegt að fara að taka ægilegan sveig og snúa til baka að dælunni. Ég hefði gert það hefði ég verið á töff bíl, en þessi er ekki töff svo ég keyri upp að grindverkinu sem er meðfram bílastæðinu og hugsa "æi ég þykist bara vera að bíða eftir einhverjum þangað til hann fer". Svo ég stoppa þarna og þykist bíða eftir einhverju öðru en því að hann fari. En svo koma alltaf fleiri og fleiri, allt í einu þarf öll Akureyri að taka bensín í Orkunni. Og ég finn hvað ég verð enn glataðri, það er enn asnalegra að vera búin að húka þarna við grindverkið heillengi og skammast svo um síðir að dælunni :s. Svo ég bíð.... og bíð. En alltaf koma fleiri bílar, og að sjálfsögðu líður mér eins og allt fíaskóið snúist um mig og allir viti hvað ég er búin að húka þarna lengi. Og enginn kemur inní bílinn til mín svo ég geti keyrt í burtu. Hversu asnalegt er að vera bara einhvers staðar, og keyra svo bara allt í einu í burtu? Án þess að nokkuð gerist. Þegar djásnið mitt var farið að hitna ískyggilega og ég orðin úrkula vonar ákvað ég að kyngja kúlinu, hengja haus og skammast útaf planinu á einhverja aðra bensínstöð. Mér leið ekki töff það sem eftir lifði dags.

mánudagur, maí 01, 2006

Þérun vs. venjuleg 1. persónu frásögn.

Í einhverri heimsreisu minni um netið nýlega fann ég mig hneykslast heldur verulega á þeim nýmóðins sið fólks að tala alltaf um sjálft sig í 3. persónu. Ekki er nóg með að fólk venji sig á þennan óþverra, heldur er það hætt að nota fornafn sitt og telur föðurnafnið líklegra til að veiða inn vott af virðingu. Og afraksturinn verður óendanlegt magn af óspennandi sögum af daglegu lífi hinna ýmsu Eitthvað-sona og Einskis-dætra. Hvað ef þetta lið er nú rangfeðrað, eins og hva.. 10% landsmanna er sagt vera? Þá er það beinlínis að ljúga til nafns, því það veit ekki betur. Já ég held það sé betra að halda sig bara við fornafnið.

Við þessar pælingar mínar allar ákvað ég aldeilis að gerast frumkvöðull í netheiminum og koma með nýjan, öllu hégómlegri ritstíl. Já dömur og herrar: Ég ákvað (og lofaði víst) að þéra mig við ómerkilegar frásagnir af sjálfri mér hér á netinu. Þessi efnisgrein gæti þá litið einhvern veginn svona út:

"Við þessar pælingar yðar allar ákváðuð þér aldeilis að gerast frumkvöðull í netheiminum og koma með nýjan, öllu hégómlegri ritstíl. Já dömur og herrar: Þér ákváðuð (og lofuðuð víst) að þéra yður við ómerkilegar frásagnir af sjálfri yður hér á netinu."

Eftir nánari ígrundun er ég þó hreinlega ekki viss um að ég geti staðið við loforðið. Ástæðan er sú að ég verð hreinlega ringluð á að skrifa með þessum hætti. "Þér" og "yður" hringsóla í kollinum á mér og það er happdrætti hvort verður fyrir valinu, auk þess sem ég áttaði mig á því að ég veit ekki hvort viðhangandi orð (sem hafa sjálfsagt einhver falleg málfræðiheiti sem ég man ekki lengur) beygjast og breytast eftir kynjum og svoleiðis óþarfa. Svo ég held ég muni einungis gera sjálfa mig að fífli við að reyna að slá um mig með einhverri rembu eins og þérun. Auk þess sem ég er nú þegar orðin sorgmædd yfir fátæklegri íslenskukunnáttu minni, hún virðist öll eftir sjónminni en ekki fræðum. Þetta vissi ég ekki, og þótti það betra.

Svo ég svík loforðið. En, sömu manneskju lofaði ég því einnig að sögurnar hér yrðu svokallaðar "band camp" sögur. Stolt tel ég mig hafa staðið við það.

Góðar stundir.