mánudagur, maí 22, 2006

Bjössi Vembill

Ég er hinn nýji Bjössi Vembill. Hef þar með hrifsað titilinn af stórfrænda mínum Birni Sigurðssyni. Hann fær að halda hinum titlinum, Bjössi Rauði. Það er þar til mér dettur í hug að mála hárið rautt, í stíl við vembilinn. Stundum held ég að þetta sé að slitna framan af mér, fóðurþunginn er svo mikill. Andskotans vembill.
Undir vemblinum er svo pínulítil bumba, en heppilega mistaka allir vembilinn fyrir rosalega stóra bumbu utanum alveg rosalega, rosalega stórt barn. Ég spila með, því ég get það. Hver vill vera með vembil og litla bumbu, þegar enginn vembill og stór bumba er í boði?

Það rann hins vegar upp fyrir mér um daginn að þetta ástand er aðeins tímabundið. Dagar hreinræktaðs vembils munu koma áður en ég veit af. Ohh hvað það verður ljúft að mæta í Hagkaup, nýbúin að koma krílinu frá mér, feeling slim as ever, og einhver kunningjakonan sem ég man ekki hvað heitir mun stoppa mig og spyrja: "Gavööð ertu ekki enn búin að eiga, þessi ætlar að láta bíða eftir sér. Jiii, ég held það nú, svo gott að vera þarna í hlýjunni...." o.s.frv. Ætli ég spili ekki bara með þá líka. Hristi vembil með kurteisishlátri.

Það sem óumflýjanlega verður þarna á milli er fæðing. Elskulegur kvensjúkdómalæknir upplýsti mig um það um daginn að fyrsta og önnur fæðing væri eins og svart og hvítt. Og hló. Já konur nytu sko annarar fæðingar! Mér var ekki skemmt. Andskotann ætli hann viti um það. Mér þætti gaman að sjá hann njóta þess að skíta keilukúlu, hvort sem væri í fyrsta eða annað sinn. Jafnvel með hjálp einhverskonar iðnaðardrullusokks, sem engan gæti grunað að væri til annars en að losa stíflaða rotþró. Já ég man alltof vel eftir þessu. Andstyggilegur ananasdjús, klappstýrur, steinrunnin kerling með forláta sogklukku í eftirdragi og blóðmagn sem aðeins sæmir 3ja flokks sláturhúsi. Jah, hver nýtur þess ekki, spyr maður sig. En ég brosti bara kurteisislega framan í karlinn, hann hlyti að vita þetta.

Afsakið orðbragðið. Ég held ég hætti hér.

Engin ummæli: