laugardagur, maí 12, 2007

Búseturéttur til sölu!

Þar sem ég er á undan samtíðinni þá hef ég ákveðið að óska tilboða í búseturétt minn á landsbyggðinni. Tilboð skilist til Búfjáreftirlitsmanns Eyjafjarðarsveitar, Bjarna Kristinssonar, fyrir 15. júlí næstkomandi. Búseturétturinn veitir aðgang að búsetustyrkjum sem líklega verða settir á fót á næsta kjörtímabili.

Ástæða þess að ég ákveð að selja réttinn strax er sú að ekki er ótrúlegt að búsetustyrkirnir verði svo afnumdir eftir einhver ár, vegna mikils kostnaðar og vaxandi óánægju þeirra er ekki eiga tilkall til styrkja. Því vil ég vera einn af þeim sem hafa haft vitið fyrir neðan sig, ef svo má segja, og selt árans réttinn áður en hann verður aflagður. Hvað verður um aumingjann sem hefur keypt réttinn, fyrir einhverjar milljónir vænti ég, er mér alveg sama um. Hann getur bara borgað af honum þá án viðhangandi styrkja. Ég mun hafa fengið mitt, gratis, selt og grætt, sátt og sæl, og heimta afnám búsetustyrkja því ég, eins og aðrir, borga þá með mínum skatti. Skuldirnar, sem orðið hafa til vegna kaupa á búseturétti, ætla ég ekki að greiða.

Ég verð brjáluð ef ég má ekki selja búseturéttinn minn og þannig aðganginn að styrkjunum, eins og má í landbúnaðarkerfinu. Þessum rétti á auðvitað bara að úthluta til þeirra sem nú þegar búa úti á landi, hinir sem hyggjast flytja þangað í framtíðinni verða bara að kaupa hann. Þannig hefur svona alltaf verið gert hér, og þykir æði. Köllum það kvóta.

Kveðja,
Kvótakóngurinn.

p.s. einnig óskast tilboð í húnvetnsk atkvæði, fyrstir koma, fyrstir fá. Tilboðin þurfa að vera í formi kosningaloforða.