fimmtudagur, september 21, 2006

Haustið er komið...

... og ég var að uppgötva. Offitusjúklingar eru duglegasta fólk í heimi. Ég fer ekki ofan af því. Þvílíkt erfiði sem það hlýtur að vera að leysa hin einföldustu daglegu verkefni þegar maður er svona 50+ kg of þungur. Þessa ályktun dreg ég af því að þurfa að drattast um í eigin líkama þessa dagana. Ég segi fyrir mitt leyti; ég er einfaldlega of löt að eðlisfari til að nenna að verða offitusjúklingur!

Hér eru dæmi um það sem ég get ekki lengur:

-Klætt mig í skó með mannsæmandi hætti.
-Beygt mig eftir hlutum sem ég missi á gólfið í bílnum.
-Nagað táneglurnar.
-Staðið upp úr Lazy Boy án vandræða.
-Faðmað fólk.

Aftur hafa mér áskotnast örfáir nýir hæfileikar. Ég get:

-Kreist naflann og skoðað eftirstöðvar eigin naflastrengs.
-Leikið páskaegg.
-Leikið Bjössa bollu.
-Klofið atóm.

Hinir horfnu hæfileikar nýttust mér betur, sem athafnalitlum einfeldning. Unnið verður hörðum höndum að því að endurheimta þá hið fyrsta. Munið þessa speki lömbin mín, og látið ekki spikið hlaupa með ykkur í gönur. Á morgun hefst dagskrá með hugvekju.

Guð veri með ykkur.