föstudagur, nóvember 09, 2007

Baðherbergi óreglunnar.

Ég fann það. Draumabaðherbergið mitt. Ég fann það við mína reglulegu skoðun á fasteignamarkaði Danmerkur. Ég fann það í annars prýðilegu húsi, með prýðilega ljótum grænum arni.

Án efa það fyrsta sem heillaði mig er fóturinn sem heldur uppi látlausri innréttingunni. Hrár, fallega hannaður, og maður veit varla hvort hann yfirleitt snertir gólfið. Tilfinning fyrir léttleika rýmisins fer um mann. Skemmtilegur contrast kemur svo fram með samspili annars vegar hrárrar járnáferðar á lóðréttum pípum og hins vegar áferðar hlýleikans á láréttum, hvítum pípum. Minnir á ákveðinn hátt á baráttu hins góða og hins illa, sem alls staðar umkringir okkur. Baráttan fer fram rétt ofan við iðandi gólfefnið, sem að líkindum skilar á endanum föllnum hermönnum beinustu leið til helvítis um ryðgað niðurfallið. Svona praktískt séð má benda á að líklegast sér lítið á gólfinu, sem er hentugt ef fólk er lítið fyrir að þrífa. Liturinn er einnig klassískur.

Nú. Því næst missti ég smá þvag þegar ég sá þessa frábæru lausn ofan við vaskinn. Hvaða hálfvita datt í hug að hafa þarna spegil, þegar hægt er að hafa GLUGGA? Svona í hreinskilni, hvort viltu, really, frekar sjá úldið og svefndrukkið fésið á sjálfum þér á morgnana eða fagra náttúru, smáfugla að söng, sólskin og blóm? Þá er gluggakistan einnig tilvalin til nýtingar sem hilla undir sápu, tannbursta og fleira sem fylgir mannlegu viðhaldi. Ef þú þarft endilega að skoða þig eitthvað, jafnvel kreista eina bólu, þá er spegillinn þarna bara strax til hægri. Honum er fallega stillt upp, helmingur á köldum flísum og helmingur á appelsínugulum vegg. Úr verður reyndar örlítil skekkja á heildarmyndinni, en nauðsynleg svo maður taki eftir honum og hrökkvi ekki í kút. Í seilingarfjarlægð frá speglinum er ágætis sápuskál sem án efa mætti nýta einhvern veginn. Dásamlegt.

Einu gallarnir sem ég sé er að klósettpappírinn mætti vera betur staðsettur og vaskurinn er í full mikilli hæð frá gólfi. Svo hefði ekkert verið verra að hafa handklæðið þarna appelsínugult, rétt til að gefa þessu smá stíl. Meintur gluggaopnari sem hangir niður er stórsniðugur, enda varnar hann því að smáfólkið sé að príla uppá innréttinguna til að opna gluggann.

Stórglæsilegt.

Ég á afmæli á morgun. Inneign í Denmarks' House of Restroom Crap væri æði. Gleym-mér-ey.