fimmtudagur, mars 15, 2007

Þetta er Jackson að kenna.

Ég vil byrja á að þakka stuðninginn kæru frænkur. Mér þykir vænt um ykkur. Þið hin megið vera úti. Nei djók. Plís ekki fara.

Í annan stað vil ég bara örstutt tæpa á hinum umdeilda Michael Jackson. Þetta er án efa það versta sem frægð hans og frami hefur leitt af sér. Svei mér þá. Séuð þið ekki sannfærð eftir fyrsta áhorf, horfið þá aftur. Frumgerðin var nógu slæm.

Ein tilraun var svo augljóslega ekki nóg. Þessi var líka gerð. Ég hef fyllst valkvíða.

Og þá er þörf á skoðanakönnun. Ég vísa í þá röð sem ég setti myndböndin fram í.Til gamans:

Réttupphend sem hafa lent í þessu.

From Russia with love,
Melman.

föstudagur, mars 09, 2007

Piff!

Ég er algjörlega orðlaus yfir því að engin orðræða hafi spunnist um síðustu færslu mína. Eiginlega bara móðguð. Ég bjóst við sjóðandi heitum rökræðum. Það kom ekki einu sinni skitið "Heyr heyr". Sérstaklega er ég hissa á að ekki ein melaskeifa af þeim sem slæðast hér inn öðru hvoru hafi látið svo lítið að leggja orð í belg, svona með vísan til starfsvettvangs forfeðranna. Hnuss. Það var heldur ekki púað á mig. Rakel fær þó prik þó hún hafi enga afstöðu tekið um málefnið, en hún vill augljóslega dansa við mig. Það er alltaf góðverk.

Til að verjast því að þær hugsanir ásæki mig að færslan hafi hvorki verið fugl né fiskur hef ég ákveðið að túlka slök viðbrögð þannig að það hafi engu verið við þetta að bæta, engin gagnrök til og óþarfi að eyða púðri í vonlausar tilraunir til mótmæla. Þetta sé bara borðleggjandi.

Sé það ekki málið þá hóta ég að loka síðunni!

Til gamans:

Ykkar,

Birna með keppnismelaskeifu.

laugardagur, mars 03, 2007

Menn dagsins: Michael and Miles.

Þessir ágætu bræður hafa ákveðið að gerast skjaldberar íslensku sauð- kindarinnar úti í hinum stóra heimi. Eiga þeir heiður skilinn fyrir það, sérstaklega í ljósi þess að illa er að henni vegið á mörkum hins óbyggilega. Hjara veraldar. Nafla alheimsins. Íslandi.

Láta þeir Michael og Miles í té ítarlegan rökstuðning í 9 liðum um val sitt á búfénaði, íslensku sauðkindinni. Má af ráða þá niðurstöðu að sauðkindin góða sé fýsilegur kostur til framleiðslu ýmiss konar varnings. Á meðan grenja Íslendingar og heimta að steralegnir hormónavöðvar frá erlendum verksmiðjubúum verði fluttir í tonnavís til eyjarinnar, til að bjarga þeim frá yfirgangssömum okrurum og einokunardurtum. Íslenskum sauðfjárbændum. Án árangurs hafa bændurnir, skjálfandi á kjötlitlum beinunum, reynt að malda í móinn og spurt hvort hugsanlega sé verið að hengja bakara (bónda) fyrir smið (kaupmann, samlag, Tonyu Harding o.s.frv.). Ísland hefur tekið ákvörðun. Íslenska sauðkindin er að tapa. Framsóknarflokkurinn líka.

En jafnvel á svörtustu tímum getur glitt í von. Nú þurfa sauðfjárbændur að snúa vörn í sókn! Endurskoða þarf tilvist og tilgang sauðkindarinnar. Endurlífga þarf hrútasýningarnar fornu, hefja kynbótaræktun á íslenskri sauðkind með áherslu á geðslag, fótaburð, prúðleika, fegurð á beit, samræmi, réttleika og greind. Kynbótasýningar yrðu haldnar við mikinn fögnuð áhorfenda, landsmót, jafnvel heimsmeistaramót. Einnig yrðu vetrarleikar í rollufimi í boði Landssambands kornbænda, en M&M ku hafa þjálfað kindina til hinna ýmsu kúnsta með handfylli korns að vopni. Þá yrðu íslenskir hrútar seldir erlendis fyrir okurfé, (h)okrarinn í afdalnum myndi stórgræða og greiða góða summu í ríkissjóð. Svo yrði innflutt íslenskt lambakjöt frá Ameríku í kjötborðum verslana, á spottprís að sjálfsögðu. Enda kynbótadýrin hér heima ekki étin. Allir fengju sitt. Nema kannski Framsóknarflokkurinn.

Ég bendi á stolt M&M og prýði, ræktunarhrútana, máli mínu til stuðnings.

Þess má geta að Michael og Miles rækta einnig íslensk landnámshænsni og bjóða m.a. uppá eggjatínslu á landi sínu, gestkomandi til afþreyingar og ómældrar ánægju. Þá hafa þeir aflað sér ítarlegra upplýsinga um sögu nefnds fiðurfénaðar.

Þeim sem vilja kynna sér starfsemi og vöruframboð M&M frekar er bent á forsíðu heimasíðu SweetGaiaFarm.

Að lokum: Hættum að sækja vatnið yfir lækinn, hengja bakara fyrir smið, kasta grjóti úr glerhúsum, kenna árinni, binda endur og allt það. Tökum til í eigin garði og varðveitum þá gersemi sem íslensk sauðkind er. Veljum íslenskt!

--------------------------------------------------------------------------------------

Bændasamtök Íslands styrktu gerð þessa pistils.

ATH: Ég frábið mér allar ásakanir um hagsmunatengsl og afleidda hlutdrægni. Ég á ekki eina einustu rollu.

fimmtudagur, mars 01, 2007Þessi áróður er aðallega birtur hér sökum þess hve sérdeilis vel hann passar allri umgjörð og útliti síðunnar. Völu Matt er sérstaklega boðið í heimsókn.