sunnudagur, júlí 22, 2007

Ég er hætt.

Sjálf kíki ég nánast aldrei á blogg þeirra sem sjaldan nenna að blogga. Sjálf nenni ég sjaldan að blogga. Því tel ég líklegt að sjaldan sé kíkt á bloggið mitt. Sjaldan. Þar sem þetta er forarpyttur sem nánast vonlaust er að koma sér úr, nema með því að tapa kúlinu og fara að biðja fólk um að skoða eða byrja að kommenta sjálfur, þá hef ég ákveðið að segja upp stöðu minni á þessari síðu. Auk þess nenni ég þessu ekki. Eða sjaldan. Staðan er því laus til umsóknar frá og með deginum í dag. Ég kveð með trega.

B.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Ef það er eitthvað sem ég get, þá er það að skrifa texta. Eftirfarandi er t.d. uppáhalds setningin mín úr glænýju BA ritgerðinni sem ég er að leggja lokahönd á. Mér líður eins og nýbakaðri móður:

"Since article blablabla of the Act in Respect of Children segir að umgengni og meðlag megi ákvarða innan dómsmáls um forræði, verður að álykta að slíkar ákvarðanir fari eftir jurisdictional rules of hjúskaparlögum séu þær kröfur á annað borð gerðar. (einnig er skylda að ákvarða meðlag samtímis sbr. Einhverja grein)"

Ég fæ bara gæsahúð þegar ég les þetta. Stolt sendi ég leiðbeinandanum ritgerðarlufsuna, með þessa setningu innanborðs að sjálfsögðu. Hann gerði feitan hornklofablending utan um hana (ekki spyrja mig hvað hornklofablendingur er). Ég tók því allavega þannig að hann vildi einhvers konar umorðun. Ekki skil ég hvers vegna.

Það mætti halda að maðurinn hafi ekki vitað að ég væri að senda honum með öllu ókláraðan kafla. Kannski var hann bara að minna mig á þetta, þetta hefði auðvitað getað slæðst framhjá augum mínum við yfirlestur, slíkt skíttis smotterí.

Og svo geri ég ráð fyrir að þið hafið skoðað myndina af mér sem ég var að skella í prófælinn minn. Því miður var mér meinað að fara svona á skrallið. Ekki skil ég það heldur. Ég er viss um að innst inni þykir öllum þetta töff.

Svo skil ég ekki heldur af hverju mér tekst ekki að gera titil á þessa færslu. Hún hefur því ótitilinn "Án titils", hérmeð birtan. Frumlegt.

Nýjum hæðum í leiðindum var náð um helgina yfir myndinni "Winter passing" sem ástkær systir mín valdi gaumgæfilega á 3 fermetra videoleigunni á Skagaströnd. Will Ferrell náði að vera leiðinlegri en venjulega, þar sem hann reyndi ekki einu sinni að vera fyndinn. Mig minnir þó að ég hafi brosað að einu atriði í myndinni, en ég man ekki hvað það var. Ég verð eiginlega að horfa á hana aftur til að geta sagt ykkur frá því. Þar sem ég er nirfill af Guðs náð þá píni ég mig ævinlega til að horfa á slíkar myndir til enda, þrátt fyrir að ég viti frá fyrstu mínútu að þær verði ekkert annað en leiðinlegar, vegna þess eins að einhver hefur eytt í þær 500 krónum (per mynd). Ég hef því séð óhemju magn af myndum sem þessari. Sumir myndu kannski kalla þetta nytjahyggju. Winter passing má þó eiga það að hún ber titil með rentu, þar sem mér leið sem vetur hefði liðið þegar hún loksins tók enda. Mæli eindregið með henni.

(Án kveðju sem titils, í mótmælaskyni)