mánudagur, maí 01, 2006

Þérun vs. venjuleg 1. persónu frásögn.

Í einhverri heimsreisu minni um netið nýlega fann ég mig hneykslast heldur verulega á þeim nýmóðins sið fólks að tala alltaf um sjálft sig í 3. persónu. Ekki er nóg með að fólk venji sig á þennan óþverra, heldur er það hætt að nota fornafn sitt og telur föðurnafnið líklegra til að veiða inn vott af virðingu. Og afraksturinn verður óendanlegt magn af óspennandi sögum af daglegu lífi hinna ýmsu Eitthvað-sona og Einskis-dætra. Hvað ef þetta lið er nú rangfeðrað, eins og hva.. 10% landsmanna er sagt vera? Þá er það beinlínis að ljúga til nafns, því það veit ekki betur. Já ég held það sé betra að halda sig bara við fornafnið.

Við þessar pælingar mínar allar ákvað ég aldeilis að gerast frumkvöðull í netheiminum og koma með nýjan, öllu hégómlegri ritstíl. Já dömur og herrar: Ég ákvað (og lofaði víst) að þéra mig við ómerkilegar frásagnir af sjálfri mér hér á netinu. Þessi efnisgrein gæti þá litið einhvern veginn svona út:

"Við þessar pælingar yðar allar ákváðuð þér aldeilis að gerast frumkvöðull í netheiminum og koma með nýjan, öllu hégómlegri ritstíl. Já dömur og herrar: Þér ákváðuð (og lofuðuð víst) að þéra yður við ómerkilegar frásagnir af sjálfri yður hér á netinu."

Eftir nánari ígrundun er ég þó hreinlega ekki viss um að ég geti staðið við loforðið. Ástæðan er sú að ég verð hreinlega ringluð á að skrifa með þessum hætti. "Þér" og "yður" hringsóla í kollinum á mér og það er happdrætti hvort verður fyrir valinu, auk þess sem ég áttaði mig á því að ég veit ekki hvort viðhangandi orð (sem hafa sjálfsagt einhver falleg málfræðiheiti sem ég man ekki lengur) beygjast og breytast eftir kynjum og svoleiðis óþarfa. Svo ég held ég muni einungis gera sjálfa mig að fífli við að reyna að slá um mig með einhverri rembu eins og þérun. Auk þess sem ég er nú þegar orðin sorgmædd yfir fátæklegri íslenskukunnáttu minni, hún virðist öll eftir sjónminni en ekki fræðum. Þetta vissi ég ekki, og þótti það betra.

Svo ég svík loforðið. En, sömu manneskju lofaði ég því einnig að sögurnar hér yrðu svokallaðar "band camp" sögur. Stolt tel ég mig hafa staðið við það.

Góðar stundir.

Engin ummæli: