sunnudagur, mars 16, 2008

Ótímabær öldrun

Ég er með ljótuna. Á háu stigi. Þar að auki virðist skinnið vera að leka af fésinu á mér. Mér líst illa á það. Einhverra hluta vegna hefur heilum ættbálki af hrukkum þótt þjóðráð að setjast að hjá mér. Ég hef aldrei kunnað að meta boðflennur.

Nú er ég ekki nema 26 ára, í blóma lífsins. Það er þó eins og Guði hafi þótt fyndið að setja sveskjur í augntóftirnar á mér áður en hann potaði augunum þangað. Ef einhvern vantar efri augnlok þá á ég slatta aflögu. Í það minnsta nóg í 2-3 sett. Einnig er möguleiki á neðri augnlokum. Ennið á mér virðist svo hafa fengið sitt tískuvit á bingókvöldi eldri borgara. Upp á sitt einsdæmi lagðist það í hrukkusöfnun og myndi helst sæma áttræðum sjómanni eins og það stendur í dag. Ég á þó ekki von á að góðæri áttræða sjómannsins standi lengi yfir, eins og hraðinn hefur verið á þessu. Mætti kannski athuga hvort séns væri á að fá ellilífeyri að tiltölu við krumpurnar, það væri örlítil skaðabót. Svo er það síðasta áhyggjuefnið í öldrunarkategoríunni; óvenjumikil áhrif þyngdaraflsins. Andlitið hefur beinlínis sigið. Já, SIGIÐ! Ég er komin með búlldog kinnar. Og svo er það helvítis hökusepinn. Þar hefur þyngdaraflið helst sigrað mig. Nú er skinnið spennt frá hökubroddi og í skálínu niður að miðjum hálsi. Það á að liggja fast að kjálkanum og svo taka vinkilbeygju niður hálsinn. Ég get alveg sagt ykkur það að ákvörðun skinnsins um að stytta sér leið þarna niður gerir ekkert fyrir hliðarsvipinn minn. :(

Nú, síðast en ekki síst. Rauðir þurrkuklasar og einhvers konar bóluútbrot eru að hertaka krumpufésið þessa dagana. Þetta á sér helst stað efst á nefbeininu og í vinstri kinn. Ferlega ósmart, og ekki til að lífga uppá ástandið. Ég gerði mér ferð í dag að reyna að versla einhver töfrakrem til að lækna þennan fjanda, en þegar á hólminn var komið týmdi ég ekkert að kaupa nema andlitstóner og hreinsiklúta frá Nivea. Enda trúlega best að láta fagfólk um þetta héðan af. Þurrkurnar og tónerinn prufaði ég áðan, og uppskar lítið annað en augn- og húðsviða. Við sjáum hvað setur, þetta í það minnsta verður ekki mikið verra.

Já, fésið á mér fellur hraðar en íslenska krónan og úrvalsvísitalan samanlagt. Þið finnið mig í krumpukremadeildum allra helstu stórmarkaða, þar sem ég er leitandi leiða til að líða betur í mínu eigin, krumpaða skinni. Það er þó einn kostur. Ég er ekki orðin alveg jafn illa haldin og skóauglýsingargaurinn hérna til hliðar. Hann er viðmiðið núna. How sad.

Meðfylgjandi er mynd af mér á góðum degi á næsta ári. Verið viðbúin.


Góðar stundir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

what what..

Dagný Rut sagði...

Haaahahahahaaahahaaa

Sorry Birna en þetta er bara allt of fyndið! Ég sem hélt að ég fengi ljótuna á háu stigi en men ó men það er ekkert í líkingu við lýsingarnar hér að ofan.

Ég get þó sagt þér að þetta er eflaust bara í speglinum þínum. Mér finnst þú alltaf jafn sæt!

Nafnlaus sagði...

Thad er slæmt á thér ástandid vinan, er lífid farid út strembinn sjálfsthurftarbúskap tharna í Eyjafirdinum?
kv. thóra lísa :)