þriðjudagur, desember 04, 2007

Ein spurning.

Af hverju er alltaf bréfpoki við höndina í sjónvarpinu þegar einhver fer að grenja og þjást af oföndun?

Ég lenti í þessu um daginn. Fór að grenja svona skyndilega, án skiljanlegrar ástæðu, þegar ég var að fara að sofa. Grenjaði svo mikið að ég náði ekki andanum, andaði grunnt, hratt og illa. Ofandaði sumsé. En það var enginn bréfpoki við höndina. Mannfýlan mín vaknaði ekki upp og rétti mér bréfpoka. Ef ég hefði verið í sjónvarpinu hefði hann gert það. Vaknað, rétt mér nýstraujaðan bréfpoka, knúsað mig. Jafnvel grátið aðeins með mér, af samúð. Það sem hann gerði raunverulega var að umla eitthvað um beljur. Ég er nokkuð viss um að það eru algengari viðbrögð en að töfra fram bréfpoka. Hugsanlega hefði hann getað töfrað fram smokk fyrir mig til að anda í, ef hann hefði haft nægt meðvitundarstig til þess. En það hefði örugglega ekki hjálpað. Svona til að hræða ykkur ekki þá var þetta bara fyrirtíðaspenna af leiðinlegri sort.

Reyndar, þegar ég hugsa þetta aðeins betur, þá hefur þetta gerst áður. Þá var í raun bréfpoki við höndina. En það voru allt aðrar aðstæður, og tilvist bréfpokans þar fullkomlega rökrétt. Mamma, þú vilt örugglega hætta að lesa núna. Það var þegar ég var haugafull, hangandi á lægsta grindverki sem ég hef augum barið, fyrir utan félagsheimilið Laugarborg hér í sveit. Þar var haldið svokallað "hommaball" Menntaskólans á Akureyri. Góður snobbskóli sem þið hafið örugglega heyrt um. Unnusti minn til margra ára var þar að spila á trommur með hljómsveit sinni, Gras, sem spilaði fyrir dansi, en við þekktumst ekki. Nú lá ég þarna á grindverkinu og ofandaði auk þess sem ég grenjaði stíft. Skyndilega fékk ég bréfpoka í hendurnar, og var ítrekað sagt að anda í pokahelvítið. Ég andaði í pokann og um það leyti sem ég var að ná tökum á önduninni heyrði ég útundan mér "löggan er að koma!" og ég var umsvifalaust tekin í fang einhvers og borin niður í búningsherbergi hljómsveitarinnar "Gras". Undir borði inní því herbergi hélt ég áfram að anda í pokann minn nokkra stund. Ég hitti svo unnusta minn til margra ára í partýi á Akureyri seinna þessa nótt. Hann bjargaði mér frá því að detta niður stiga. Við töluðum saman í einhvern tíma áður en hann drapst áfengisdauða í hægindastól. Ég var farin áður en hann vaknaði. Bréfpokann sá ég aldrei aftur. Sjálfsagt hefur hann aldrei aftur fengið að umlykja vodkaflösku eins og honum var ávallt ætlað.

Spennið beltin og hafið með ykkur bréfpoka. Maður veit aldrei hvenær þeir geta komið sér vel. Smokk líka.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ó mæ... ég verð greinilega að taka með mér slatta af pokum næst þegar ég fer í ríkið hahaha en það er þá betra að hafa þá í minni náttborðsskúffu því minn eiginmaður þjáist af því sama o þinn unnusti nema minn talar ekki um beljur heldur spýtur og steypu...

samúðarkveðjur úr þorpinu

Nafnlaus sagði...

Elsku Birna mín, fuss og svei!
Thetta skal ég muna.. ávalt ad hafa med sér bréfpoka...eda smokk, hehe.
til hvers ad læra af eigin mistökum, thegar madur getur lært af mistökum annarra ;)
chiao beib!
kv. Thóra Lísa

Nafnlaus sagði...

Jæja hvernig væri nú að fara að fá eitthvað smá blogg hér inn hmm.. er ekki á neinu að smjatta það sem af er 2008 eða hvað??

Mvh. Dís

Nafnlaus sagði...

er þokkalega fúll yfir því misrétti að aldrei hafi verið haldið hommaball þegar ég var í MR, sem er víst enn rótgrónari snobbskóli en MA...

Dagný Rut sagði...

HAHAHA þetta var yndisleg færsla...