föstudagur, desember 15, 2006

Rauða djásnið # 2

Tími fyrir aðra sögu af rauðu djásni. Ó nei, það er ekki sama djásnið og flutti mig milli staða hér um árið! Það hefur verið selt, fyrir einar 50.000,- kr., og er Daníel á Helgastöðum stoltur nýr eigandi. Við óskum honum að sjálfsögðu til hamingju með drossíuna!

Við erum að tala hér um eldavélina mína. Ó svo fögur. Hún er rauð. Mýrarrauð. Með appelsínugulum tökkum. Ég álít að eldavélinni hafi verið hent einhvern tímann uppúr fyrri heimstyrjöld. Einhverra hluta vegna hefur hún ekki viljað gefast upp, og nú er hún hér hjá mér. Ég veit eiginlega ekki hvort hún telst ennþá til eldavéla í hefðbundinni merkingu, þar sem hún hitnar meira að utan en innan. Mér skilst þær eigi ekki að gera það. En það er allt í lagi. Það er nefnilega ísskápur við hliðina á þessari mögnuðu græju, og þegar verst lætur sting ég bara rassinum þar inn. Assgoti gott. Snillingarnir sem hönnuðu tækið höfðu líka vit á því að setja við í handfangið, svo ef maður passar að hitta á viðinn þá brennir maður sig ekki á annars fagursniðnu málmhandfanginu.

Takkarnir eru líka ofsalega sniðugir. Tölurnar eru allar máðar af, þið vitið: þessar sem segja til um hita, svo maður verður bara að giska. Það gengur misvel. Erfiðast var þetta í fyrstu, þar sem hitinn á hellunum fjórum er rangsælis hækkaður með þar til gerðum appelsínugulum tökkum. Nei, ég lýg, hraðsuðuhellutakkinn er réttsælis. Lengi átti ég ekki til orð yfir því hversu lengi ein hella á hæstu stillingu gæti verið að koma upp suðu á vatni. En þar sem ég er sérdeilis úrræðagóð, þolinmóð og hika ekki við að gera tilraunir, þá fann ég fljótt orsökina. Takkarnir fyrir ofninn, eins og hraðsuðuna, snúast rétt.

Brunalyktin sem gýs upp þegar kveikt er á apparatinu er náttúrulega bara heimilisleg, og reykurinn sem púðrast gegnum lélegt einangrunargúmmí á vinstri hlið ofnhurðar einnig. Smellirnir dularfullu sem heyrast öðru hvoru veita manni félagsskap á dimmum vetrarkvöldum, og eru þessu gæða sírati virkilega til framdráttar. Hún sparar líka rafmagn, því þegar þér hefur tekist að sigrast á viðsnúnum tökkum og hitað eina hellu, þá geturðu notað allar hinar líka því þær hitna að sama skapi.

En, nú eru tímamót framundan. Við neyðumst líklega til að láta þessa elsku frá okkur. Það er öryggi barnanna sem knýr okkur til þess, aðallega drengsins þar sem stúlkan er orðin 5 ára og búin að læra að forðast Old Red. Það er hitinn og vöntun á barnalæsingu á hurð nánar tiltekið. En, eins manns dauði er annars brauð, eins og við segjum í sveitinni, og eru þetta því góðar fréttir fyrir ykkur dyggu lesendur. Þið hafið nú tækifæri til að eignast þennan stórbrotna grip sem geymir matar-menningarsögu þjóðarinnar á 20. öld og gott betur. Fýsilegur kostur í vali á raftækjum, og stöðugur klettur í ólgusjó breytinganna! Ekki er merkið af verri endanum, en eftir stendur einn stafur af því, X, og það er alveg örugglega ekki Elektrolux!

Nú, tækið er falt, en einungis fáist viðunandi tilboð. Þar sem gamli hlunkurinn er ekki einungis antík, heldur einnig ástæða til að selja hann sem hönnun, þá er lágmarkstilboð 500.000,- krónur íslenskar. Þið getið gert tilboð hér á síðunni, nú eða haft samband við mig í síma. Fáist ekki rétt verð, verður gripurinn látinn á einhvern þeirra skipulögðu ruslahauga sem eru hér í grennd, svosem Smámunasafn Sverris Hermannssonar, eða Iðnaðarsafnið á Akureyri. Möguleiki er að Þjóðminjasafninu verði boðinn hann til eigu, geti þeir sótt. Þá mun líklega fylgja gömul loftpressa. Þið getið þá fengið nasaþefinn af fágætum eðalgrip á einum þessara staða, séuð þið of samansaumuð til að kaupa hann.

Telst nú uppboð formlega hafið, vinsamlegast gerið tilboð.

Virðingarfyllst, Uppboðshaldari.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahah gott að sjá hvað þið eldavélin hafið náð vel saman.. takk fyrir frábær áramót.. brennan var sko toppurinn :)

kv. Horgemsinn í þorpinu

Nafnlaus sagði...

Uu.. hérna sendirðu til Danmörku og veistu þá hvort það sé mikill tollur af svona "design" antík grip??

Nafnlaus sagði...

Uuuuu, nei takk. Held að ég haldi mig bara við 34 módelið af AEG deluxe. Hún er nefnilega með svona suðutakka. Lækkar hitan sjálf þegar kartöflurnar og Ýsan fara að sjóða :-) Ekkert x rusl hér á ferð

Nafnlaus sagði...

Ahahahahahahahaaa!!! Ég held ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið! :D Og svo þegar ég var farin að ná andanum á ný þá las ég hana upphátt fyrir heimilisgesti og hlátrinum ætlaði bara ekki að linna :D Ég býð eina krónu! (Smáaletrið inniheldur þó klausu um að ég vil ekki fá eldavélina í alvörunni heldur er ég bara að bjóða krónu til gamans).

MaggaStína

XXX Xavier sagði...

Eitt orð: Hneisa! Mér er algerlega misboðið. Smekkurinn þvælist augljóslega ekki fyrir fólki. Hvað varðar sendingar til Danmerkur þá ætti að vera hægt að finna lausn á því máli. 1 króna er 499.999 krónum of lítið. Ég hvet fólk til að gera sómasamleg tilboð. Þess má geta, gripnum til framdráttar, að Magni hinn víðfrægi kenndur við Rock Star ku hafa átt eldavélina um tíma. Sögur herma að á henni hafi verið elduð fyrsta máltíð þeirra hjóna saman; viðbrunninn hafragrautur. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Þá vil ég ítreka við viðeigandi aðila að eftirstöðvar skíthopparanna sjálfdauðu hanga hér enn á snúrum. Hafa mér borist ítrekuð sektarboð frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra vegna málsins, sem og nokkur hótunarbréf frá umhverfiselskandi sveitungum. Geri ég að sjálfsögðu þá kröfu að hænsnin verði sótt, sektirnar greiddar og fiður hreinsað af girðingum nærliggjandi bæja. Hið fyrsta. Að öðrum kosti stefni ég málinu til Héraðsdóms, vegna vanefnda þess aðila sem gerði hér bindandi tilboð. Engin ábyrgð er tekin af undirrituðum vegna rýrnunar hænsnanna á undanförnum mánuðum, sem augljóslega má rekja til sinnuleysis viðkomandi. Allar hræætur hafa þó fyrir nokkru hætt að líta við þeim. Vinsamlega sækið!

Virðingarfyllst, Uppboðshaldari.

Þóra sagði...

Ég býð hér með 100 kr. í tækið en með því skilyrði að ég fái fínu veggvigtina í búrinu í kaupbæti. Annað skilyrði er að ég þurfi ekki að flytja maskínuna heldur fái hún heiðursess einhvers staðar þar sem ég get svo farið og dáðst að henni í einrúmi þegar ég kem norður. Ég frábið mér allan skæting vegna tilboðs þessa, 100 krónur íslenskar voru mikill peningur þegar umrædd maskína var framleidd og finnst mér rétt að miða tilboð mitt við það.

Með vinsemd og virðingu,
Þóra Ágústsdóttir

Nafnlaus sagði...

ok, ég borga þá þessar 500.000. krónur og ekki orð um það meir. Við erum þá kvitt og þú átt ekkert inni hjá mér. Hér eftir skerð þú laukinn sjálf, málar þvottahúsið og eldar matinn. Ég afþakka líka hér með fleiri kúkableyjur í pósti, óviðeigandi skilaboð og dónasímtöl um miðjar nætur. Ég sendi sendilinn með seðlabúntið og vænti þess að vélin verði klár á brúsapallinum, ekki senna en klukka átjánhundruð annað kvöld. Vélin má ekki innihalda óhreynindi að neinu tagi. Ættlast til að tryggingagjald vegna flutninga verði greitt af seljanda og miðist það við ómetanlegar eignir svo sem. kríningarskraut rússakeisara og monulisu.

XXX Xavier sagði...

Nú, við hæfi er að svara tilboðum þeim er borist hafa.

Þóra: Tilboði þínu er góðfúslega hafnað. Enn um sinn verðuru að dást að eigin heimilistækjum; forláta ísskáp, hárþurrku og sjónvarpi.

Höddson:
Efni: Gagntilboð.

500.000,- kr. á brúsapallinum fyrir lokun ÁTVR á morgun. Ekkert kjaftæði. Ég áskil mér réttinn til þess að senda hvað sem er, hvenær sem er, hvert sem er. Það sama á við um hringingar. Ég vil árétta að maskínan verður ekki þrifin, enda með öllu óásættanlegt að fyrrnefnd matarmenningarsaga þjóðarinnar verði þurrkuð út á einu bretti með slíkum gjörningi. Glingrið færðu með. Vélina getur þú tekið þaðan sem hún stendur nú. Hún verður ekki flutt af seljanda upp heimreiðina, af ótta við frekari hótanir sveitunga vegna umhverfisspjalla tilkominna vegna ósótts varnings. Þú munt áfram sjá um öll eldhúss- og þvottahússstörf.

Seljandi.

Nafnlaus sagði...

Sé mér því miður ekki fært að taka tilboði þessu innan þeirra tímamarka sem sett eru, þar sem uppsettar eru kröfur sem þarfnast skoðana skattayfirvalda og lögreglu. Sé til hvort ég set inn gagntilboð að Baugsmálinum loknu. Þú munt heyra síðar frá logfræðingi mínum vegna þessa seinna...
Endurskoðum. Ég hef ákveðið að lýsa lögfræðing minn vanhæfan, vegna eignatengsla og hagsmuna við fyrrnefnda maskinu. Nýr lögfræðingur verður skipaður af hæstarétti í lok árs 2012

Nafnlaus sagði...

Ef tu saknar rauda djasnsins ta get eg nu runtad med tig ad Helgastodum bara svona til saella mininga. Eg og Daniel erum natturlega i godu sambandi.