laugardagur, mars 03, 2007

Menn dagsins: Michael and Miles.

Þessir ágætu bræður hafa ákveðið að gerast skjaldberar íslensku sauð- kindarinnar úti í hinum stóra heimi. Eiga þeir heiður skilinn fyrir það, sérstaklega í ljósi þess að illa er að henni vegið á mörkum hins óbyggilega. Hjara veraldar. Nafla alheimsins. Íslandi.

Láta þeir Michael og Miles í té ítarlegan rökstuðning í 9 liðum um val sitt á búfénaði, íslensku sauðkindinni. Má af ráða þá niðurstöðu að sauðkindin góða sé fýsilegur kostur til framleiðslu ýmiss konar varnings. Á meðan grenja Íslendingar og heimta að steralegnir hormónavöðvar frá erlendum verksmiðjubúum verði fluttir í tonnavís til eyjarinnar, til að bjarga þeim frá yfirgangssömum okrurum og einokunardurtum. Íslenskum sauðfjárbændum. Án árangurs hafa bændurnir, skjálfandi á kjötlitlum beinunum, reynt að malda í móinn og spurt hvort hugsanlega sé verið að hengja bakara (bónda) fyrir smið (kaupmann, samlag, Tonyu Harding o.s.frv.). Ísland hefur tekið ákvörðun. Íslenska sauðkindin er að tapa. Framsóknarflokkurinn líka.

En jafnvel á svörtustu tímum getur glitt í von. Nú þurfa sauðfjárbændur að snúa vörn í sókn! Endurskoða þarf tilvist og tilgang sauðkindarinnar. Endurlífga þarf hrútasýningarnar fornu, hefja kynbótaræktun á íslenskri sauðkind með áherslu á geðslag, fótaburð, prúðleika, fegurð á beit, samræmi, réttleika og greind. Kynbótasýningar yrðu haldnar við mikinn fögnuð áhorfenda, landsmót, jafnvel heimsmeistaramót. Einnig yrðu vetrarleikar í rollufimi í boði Landssambands kornbænda, en M&M ku hafa þjálfað kindina til hinna ýmsu kúnsta með handfylli korns að vopni. Þá yrðu íslenskir hrútar seldir erlendis fyrir okurfé, (h)okrarinn í afdalnum myndi stórgræða og greiða góða summu í ríkissjóð. Svo yrði innflutt íslenskt lambakjöt frá Ameríku í kjötborðum verslana, á spottprís að sjálfsögðu. Enda kynbótadýrin hér heima ekki étin. Allir fengju sitt. Nema kannski Framsóknarflokkurinn.

Ég bendi á stolt M&M og prýði, ræktunarhrútana, máli mínu til stuðnings.

Þess má geta að Michael og Miles rækta einnig íslensk landnámshænsni og bjóða m.a. uppá eggjatínslu á landi sínu, gestkomandi til afþreyingar og ómældrar ánægju. Þá hafa þeir aflað sér ítarlegra upplýsinga um sögu nefnds fiðurfénaðar.

Þeim sem vilja kynna sér starfsemi og vöruframboð M&M frekar er bent á forsíðu heimasíðu SweetGaiaFarm.

Að lokum: Hættum að sækja vatnið yfir lækinn, hengja bakara fyrir smið, kasta grjóti úr glerhúsum, kenna árinni, binda endur og allt það. Tökum til í eigin garði og varðveitum þá gersemi sem íslensk sauðkind er. Veljum íslenskt!

--------------------------------------------------------------------------------------

Bændasamtök Íslands styrktu gerð þessa pistils.

ATH: Ég frábið mér allar ásakanir um hagsmunatengsl og afleidda hlutdrægni. Ég á ekki eina einustu rollu.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Snillingur! Það sem veltur upp úr þér, þetta kallar maður hæfileika:)

Verst að við náðum ekki að dansa á laugardagskvöldið... Gerum betur seinna og ég æfi mig í að dobbletékka fólk. Knúsí knúsí - Rachel Robbery

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr

Nafnlaus sagði...

Takk Haddur. Ég vissi að þú myndir standa með mér á endanum.

Nafnlaus sagði...

Ég verð að byrja á því að segja að mér sýnist þeir 'félagar' Michael og Miles með myndarlegri bændum, sérstaklega svona berir að ofan í smekkbuxunum! Og ég er líka hjartanlega sammála - það er engin ástæða til að flytja inn lambakjöt til íslands!

XXX Xavier sagði...

Mjög myndarlegir Reynir, ég veit ekki af hverju ég ákvað að þeir væru bræður. Sjálfsagt vegna þess að ég á einmitt svona mynd af Atla og Sindra berum að ofan í eins smekkbuxum á heitum sumardegi í fyrra.

Maður verður eiginlega að safna fólki í túristaferð á þennan bæ.