föstudagur, mars 09, 2007

Piff!

Ég er algjörlega orðlaus yfir því að engin orðræða hafi spunnist um síðustu færslu mína. Eiginlega bara móðguð. Ég bjóst við sjóðandi heitum rökræðum. Það kom ekki einu sinni skitið "Heyr heyr". Sérstaklega er ég hissa á að ekki ein melaskeifa af þeim sem slæðast hér inn öðru hvoru hafi látið svo lítið að leggja orð í belg, svona með vísan til starfsvettvangs forfeðranna. Hnuss. Það var heldur ekki púað á mig. Rakel fær þó prik þó hún hafi enga afstöðu tekið um málefnið, en hún vill augljóslega dansa við mig. Það er alltaf góðverk.

Til að verjast því að þær hugsanir ásæki mig að færslan hafi hvorki verið fugl né fiskur hef ég ákveðið að túlka slök viðbrögð þannig að það hafi engu verið við þetta að bæta, engin gagnrök til og óþarfi að eyða púðri í vonlausar tilraunir til mótmæla. Þetta sé bara borðleggjandi.

Sé það ekki málið þá hóta ég að loka síðunni!

Til gamans:

Ykkar,

Birna með keppnismelaskeifu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku litla frænka, ég er afar hrifin af sauðkindinni!! og tek ofan fyrir íslenskum bændum. Mér líður betur ef þeir lepja ekki dauðann úr skel. Eflaust því ég man tímana tvenna! þó ég hafi ekki verið uppi í kreppunni. Ætla líka að fara að dvelja mun meira í sveitinni. Fer ábyggilega í fjárhús í sauðburði í vor og rifja upp gamla tíma þó það verði ekki alveg sársaukalaust.
Knús frá gömlu frænku
Elsa

Helga sagði...

Kannski var þetta par of ólíkt Melabræðrum til að maður þyrði að fara að tjá sig um efnið. Þó að afi þinn hafi svo sem hugsað um sauðkindina öllum stundum og verið öllum mönnum fjárgleggri, þá var hann alls ekki "gæludýratýpan" af bónda. Dæmi um íslenska gæludýratýpubónda er Trausti á Sauðanesi (pabbi Magga fyrrv. Ingunnar) og svo þessir fáu geita- og landnámshænubændur.


En, elskan mín haltu þessu áfram, þetta er bráðskemmtilegt hjá þér og vel skrifað og miklu fleiri sem fylgjast með en kommentin segja til um.