föstudagur, október 26, 2007

Óður til elliheimilis

Bara í gær var ég 16. Þá fannst mér ég fullorðin. Í fyrradag var ég 10. Þá skildi ég ekki fullorðna. Í dag, eða eftir 15 daga, er ég 26. Ég er barn. Ég er barn sem varð allt í einu fullorðið. Tók varla eftir því. Ég spila með, því ég á að gera það, en í rauninni vil ég bara vera í play station.

Ég vil hlaupa í snjónum, búa til gildrur fyrir ruslakallana, henda snjóboltum í rúður og njósna um eldri krakkana. Já, ég var leiðinlegt barn. Er leiðinlegt barn. Ég vil elta ömmu inní búr því ég veit að þar er súkkulaði. Súkkulaðið í mínu búri er ekki jafn gott. Ég vil vera skömmuð fyrir að vera með hávaða í fjárhúsunum. Ég á engin fjárhús. Reyndar keypti Sindri tvær gimbrar um daginn. Nei þrjár. Hann vildi ekki kaupa þessa sem mig langaði í. Ég vil heyra andvarp og "voðalegt vesen er á þér Birna mín" í kjölfarið. Eða nei. "Ætli það verði ekki að vera" má líka missa sín. Ég vil spila badminton fram eftir allri nóttu í götunni minni. Ég vil leika mér í heyi og sitja í skottinu á bílnum. Mig langar líka að fá grænan frostpinna þegar ég er búin að borða á Greifanum. Ég vil renna mér á uppblásinni gúmmíslöngu innan úr traktorsdekki. Hver vill koma með? Englar. Ég þarf að búa til engla í snjónum. Helst horfa á stjörnurnar meðan ég er að því.

Allt þetta gerist nú innra með mér. Samfélagið leyfir mér ekki að vera barn lengur. Ég leyfi mér ekki að vera barn lengur. Það reynir oft að brjótast fram, við misgóðar undirtektir þeirra sem vitni verða að því. Þeim fer sífellt fækkandi sem vilja spila play station. Ég náði sjálfsagt í eina kallinn í veröldinni sem nennir alls alls ekki að vera barn lengur. Sökks, huh!? Enginn er til í að henda snjóboltum í rúður. Svo ég les bara lögfræði. Lögfræði er leiðinleg. Lögfræði er fyrir fullorðna. Ég er bara barn.

Ég spila meira að segja svo vel að (vonandi bara sumt) fólk telur mig kalda. Einn bekkjarbróðir minn gekk svo langt að segja að ég væri úr járni. Og bætti því við að "allir strákarnir í bekknum (4) héldu að ég gæti ekki grátið". Ég varð hissa. Svo hissa að ég fór næstum að gráta. Ég er meistari í grenji. Þ.e. barnið. Innra með mér. Enda er ég í raun viðkvæm. Lítil og viðkvæm stelpa sem varð skyndilega feit. Afi er farinn að kommenta á það. "Rosalega er hún orðin sver" sagði hann við mömmu. Eða pabba. Þá var ég reyndar ólétt. En samt. Ég fór næstum að gráta, enda viðkvæm. Fólk sér fituna. Af hverju sér það ekki viðkvæmni líka? Ég er svo full og útbólgin af tilfinningum að ég er að springa. -kafn- Já ég er bara full. Pay no attention to me. This will be erased tomorrow.

Vertu velkominn afmælisdagur nr. 26, ef þú nærð mér. Ég verð í play station.

3 ummæli:

Dagný Rut sagði...

Snilldar pistill eins og þér einni er lagið. Og veistu. Ég er sammála þér. En svo er kannski bara spurning um að leyfa sér að vera barn og gefa skít í 'norm' samfélagsins. Ég mun ekki fordæma þig þó þú leggir gildru fyrir ruslakallinn eða kastir snjóbolta í glugga (þó svo það sé minn). Gerum allt kreisí saman. Förum út og búum til snjóhús og komum svo inn og drekkum heitt kakó. Búum til tjald úr stólum og laki inní stofu og étum hnetusmjör beint úr krukkunni. Eftir það verðum við þó að setjast niður og lesa lögfræði. Valda kafla!

Nafnlaus sagði...

Hey! Styð þig, um að gera að vera í góðum tengslum við sitt innra barna (sama hversu leiðinlegt og mikil óhemja það kann að vera). Þannig að blessuð góða farðu út og kastaðu snjóboltum í rúður og farðu svo inn og spilaðu play station og drekktu kakómjólk sem er blönduð 80% kakó 20% mjólk ;)

Knús
Dís and The Child Within

P.s. Á svo ekki að fara að koma út og leika?? :)

Hildur Sólveig sagði...

Híhíhíhíhí!!! ÉG SKAL BÚA TIL SNJÓ ENGLA MEÐ ÞÉR BIRNA!!!! ÉG SKAL ÉG SKAL ÉG SKAL. Þú mátt alveg vera barn. Ég held að skemmtilega fólkið leyfir sér að vera barn einstaka sinnum, þess vegna er það svoooo skemmtilegt. :D Annars er lögfræði leiðinlegt og ég held að maður verði að gera eithvað rosalega barnalegt til að koma á móti. Svo er gott að grenja. Upphátt. HÁTT. Leyfa fólkinu heyra að maður er manneskja en ekki vélmenni fyrir framan tölvuna daginn inn og út.
Svo erum við æði. Smá fita hér og þar... það er bara more to love. Öllum finnst bollukinnar æði.
Við skulum hrekkja Dagnýu í kvöld... kasta snjóbolta í hana og gera hana gráhærða. Bara gaman!

Og mundu, við erum æði!! (bara ef þú náðir því ekki)