föstudagur, febrúar 16, 2007

Mottu stolið!

Auglýst er eftir mottu sem stolið var af hlaði Rifkelsstaða 1, Eyjafjarðarsveit, meðan kvöldmjaltir stóðu yfir sunnudaginn 28. janúar síðastliðinn. Mottan er klassísk gólfmotta úr bíl, handunnin úr gúmmíefni með íþrykktu köflóttu mynstri. Hún er talin framleidd um miðjan 8. áratuginn, líklegast erlendis, upphaflega svört að lit en hefur upplitast að einhverju marki. Örlítið nöguð hægra megin, sjálfsagt af hundi. Ekki er ólíklegt að á henni finnist arða af hrossaskít. Að öðru leyti lítur mottan vel út, óslitin og vel hæf til brúks. Síðast sást til mottunnar á bílgólfi Daewoo Matiz, rústbrúnum, árgerð 2001. Þeir sem kunna að hafa orðið mottunnar varir, eða geta gefið upplýsingar um ferðir hennar, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við undirritaða eða Lögregluna á Akureyri. Atvikið er litið alvarlegum augum og verður kært til lögreglu hafi mottan ekki skilað sér innan þriggja daga. Þeir óprúttnu aðilar sem eiga sök á verknaðinum eiga kost á að skila mottunni nafnlaust á hlaðið fyrir dögun mánudaginn 19. febrúar. Að þeim fresti liðnum verður gripið til fyrrnefndra ráðstafana.

Mottan hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir eiganda og er hennar sárt saknað. Því höfða ég til samvisku og góðvildar þess er hefur hana undir höndum; ég skora á þig, þjófur, að láta gott af þér leiða og skila mottunni.

Engin efnisleg fundarlaun í boði, enda verður mottan ekki metin til fjár.

Góðfúslega,
Eigandi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var bóas ekki á bílnum á þessum tíma?? búin að senda lögguna og yfirheyra hann??

Nafnlaus sagði...

Lýsi hér með yfir sakleysi mínu, en jafnframt hneykslaðann yfir ásökum þessum!
Mun ekki líða ósanngjarnar, og niðrandi yfirheyrslur ef að Baugsyfirheyrslurnar eru það sem gengur og gerist á klakanum.

Þóra sagði...

Ég held bara að mottan sé í drossíunni, a.k.a. Matísnum. Mér dettur ekki til hugar að skila henni, ég lít svo á að hún hafi fylgt með í kaupunum. Ef þú ert annarar skoðunnar, vinsamlegast komdu skriflegum athugasemdum á framfæri við einn lögmanna minna, Jón Kr. Guðfinnsson.

Virðingarfyllst
Þóra Ágústsdóttir