miðvikudagur, maí 03, 2006

Rauða djásnið

Ég keyri um á frábærum bíl. Hann heitir Subaru Legacy Station 1987. Frábær. Fráááábær. Eitt gott dæmi um ágæti hans og frábærleika er þegar ég fer í Bónus, eða Svínó eins og dóttir mín vill kalla þá ágætu bútík. Þið vitið þegar maður er að vandræðast með kerruna við bílinn, reyna að tína uppúr henni draslið án þess að hún renni af stað og skaði nærstadda bíla, eða sem verra er: manns eigin bíl ;). Sérstaklega er þetta erfitt þegar það er rok. Þetta er hins vegar aldrei vandamál hjá mér. Ég keyri kerrunni bara duglega utan í bílinn, og hengi hana einhvern veginn á hornið á stuðaranum. Þar stendur hún eins og klettur, og ég get áhyggjulaus raðað í bílinn og skrollað henni svo í næsta kerrubás. Eins og ég sagði: FRÁÁÁBÆR!

Annað dæmi um frábærleika bílsins er að hann hefur kennt mér ýmislegt um eigin hégóma. Yfirleitt keyri ég stolt um á honum, en fyrir kemur að ég skyndilega skammast mín óstjórnlega fyrir djásnið og vil alls ekki láta sjá mig. Nákvæmlega þetta kom fyrir mig í fyrradag.

Ég þurfti að taka bensín, eins og svo oft. Ákvað að renna við í Orkunni við Hagkaup, þið vitið 1. maí og enginn á ferli. Ég keyri inná planið, og sé að við dæluna er einhver svalur gaur á þessum voðalega fína fjölskyldu-rútubíl. Einhverra hluta vegna keyri ég framhjá dælunni, svo langt að það er eiginlega hallærislegt að fara að taka ægilegan sveig og snúa til baka að dælunni. Ég hefði gert það hefði ég verið á töff bíl, en þessi er ekki töff svo ég keyri upp að grindverkinu sem er meðfram bílastæðinu og hugsa "æi ég þykist bara vera að bíða eftir einhverjum þangað til hann fer". Svo ég stoppa þarna og þykist bíða eftir einhverju öðru en því að hann fari. En svo koma alltaf fleiri og fleiri, allt í einu þarf öll Akureyri að taka bensín í Orkunni. Og ég finn hvað ég verð enn glataðri, það er enn asnalegra að vera búin að húka þarna við grindverkið heillengi og skammast svo um síðir að dælunni :s. Svo ég bíð.... og bíð. En alltaf koma fleiri bílar, og að sjálfsögðu líður mér eins og allt fíaskóið snúist um mig og allir viti hvað ég er búin að húka þarna lengi. Og enginn kemur inní bílinn til mín svo ég geti keyrt í burtu. Hversu asnalegt er að vera bara einhvers staðar, og keyra svo bara allt í einu í burtu? Án þess að nokkuð gerist. Þegar djásnið mitt var farið að hitna ískyggilega og ég orðin úrkula vonar ákvað ég að kyngja kúlinu, hengja haus og skammast útaf planinu á einhverja aðra bensínstöð. Mér leið ekki töff það sem eftir lifði dags.

1 ummæli:

Dagný Rut sagði...

Bloggaðu kona bloggaðu. Ég veinaði úr hlátri þegar ég las þetta. You made my day honey